28.8.2024 10:06

Eftirlit og jöklaferðir

Undanfarna sólarhringa hafa miklar umræður spunnist um opinbert eftirlit með ferðum um jökla og íshella, hvort þær eigi að leyfa allan ársins hring eða ekki. 

Viðskiptaráð kynnti þriðjudaginn 27. ágúst skýrslu undir heitinu Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti.

Í kynningu á skýrslunni segir ráðið að hér standi opinbert eftirlit samkeppnishæfni landsins fyrir þrifum. Íþyngjandi útfærslur hafi verið valdar auk þess sem fjöldi og umsvif eftirlitsstofnana séu mikil samanborið við grannríki. Telur ráðið að úttekt þess á opinbera eftirlitsumhverfinu sýni að tækifæri séu til að ná markmiðum eftirlits með hagkvæmari hætti en nú er gert.

Screenshot-2024-08-28-at-10.04.15Skýrsla og tillögur Viðskiptaráðs.

Fyrir nokkrum misserum vakti Viðskiptaráð athygli á skaðsemi svonefndrar gullhúðunar, það er tilhneigingu innlendra stjórnvalda til að nota innleiðingu EES-reglna til að styrkja eigin stöðu til beitingar opinbers valds.

Upplýsingar ráðsins hrundu af stað umræðum um nauðsyn umbóta og hefur verið gripið til þeirra af hálfu stjórnvalda samhliða breytingum á aðgæslu við meðferð EES-reglna á alþingi.

Vissulega hafði verið vakið máls á neikvæðum áhrifum gullhúðunar áður en eftir að Viðskiptaráð tók verkefnið í fangið komst hreyfing á það til batnaðar. Viðskiptaráð er hugveita sem lætur sig praktísk viðfangsefni varða og fylgir niðurstöðum sínum eftir. Nú í sumar átti það þátt í að umræða kviknaði um misbrestinn í grunnskólastarfi vegna skorts á samræmdu námsmati. Athugasemdir ráðsins voru ekki gerðar að ástæðulausu því við blasir mikið óleyst verkefni sem yfirvöld hafa ýtt á undan sér árum saman án þess að viðunandi lausn sé í sjónmáli.

Oft hefur verið vakið máls á vaxandi regluverki sem getur af sér eftirlit af ýmsu tagi, einkum á vegum opinberra aðila. Þegar grannt er skoðað kemur ýmislegt í ljós sem betur má fara eins og þessi nýja úttekt Viðskiptaráðs sýnir.

Undanfarna sólarhringa hafa miklar umræður spunnist um opinbert eftirlit með ferðum um jökla og íshella, hvort þær eigi að leyfa allan ársins hring eða ekki. Tilefnið er banaslys í Breiðamerkurjökli sunnudaginn 25. ágúst. Á þriðja hundrað manns komu að leit tveggja ferðamanna í jöklinum. Þegar björgunarmenn höfðu á einum sólarhring við hættulegar aðstæður brotist í gegnum íshelluna án þess að finna nokkurt fórnarlamb hennar tilkynnti lögreglan á Suðurlandi síðdegis 26. ágúst að enginn væri undir ísnum. Leitin hefði verið óþörf hefði skipuleggjandi ferðarinnar gefið traustar upplýsingar um fjölda fólks í henni.

Ríkisstjórnin ræddi slysið þriðjudaginn 27. ágúst og settur var á laggirnar hópur fjögurra ráðuneytisstjóra til að skoða málið. Þá hefur jafnframt komið fram að stjórnendur Vatnjökulsþjóðgarðs hafi lagaheimild til opinberra afskipta af slíkri ferðaþjónustu og geti sett henni skilyrði auk þess sem fyrir liggi hættumat sérfræðinga frá árinu 2017 sem vara við ferðum af því tagi sem leiddi til slyssins. Þá segja fjallaleiðsögumenn að dæmi séu um skort á faglegri þekkingu þeirra sem stunda leiðsögn við hættulegar aðstæður á íslenskum jöklum.

Ekkert bendir til að þörf sé á nýjum lögum vegna þessa sorglega slyss eða nýrri eftirlitsstofnun, það ætti að duga að fylgja því fram sem fyrir er af þunga og alvöru.