Eftirlaunaprófessor brýtur lög
Vakir ekki einmitt fyrir prófessornum fyrrverandi að hleypa deilunni „endanlega út af teinunum“? Hann vill ekki að samið verði.
Gefið var til kynna í morgunfréttum ríkisútvarpsins í dag (1. mars) að settur ríkissáttasemjari í deilu Samtaka atvinnulífsins (SA) og Eflingar myndi nú leggja fram miðlunartillögu í deilunni. Setti sáttasemjarinn hefur nú setið í tvær vikur með málið í fanginu. Hann taldi sig eygja tækifæri til sátta fyrstu helgina sem hann kallaði deiluaðila til fundar. Síðan sótti allt í sama farið og áður, hvorki gengur né rekur í málinu.
Stjórnendur SA fengu umboð til verkbanns með um 94% stuðningi félagsmanna sinna en frestuðu framkvæmd þess um fjóra daga í von um að greiða fyrir lausn en allt kom fyrir ekki.
Morgunblaðið birti þessa mynd fyriur nokkrum árum af forystusveit Efingar í kjaraviðræðum, frá vinstri: Stefán Ólafsson, Viðar Þorsteinsson og Sólveig Anna Jónsdóttir.
Helst hefur borið til tíðinda að settur sáttasemjari sá ástæðu til að setja ofan í við Stefán Ólafsson, fyrrv. prófessor í félagsvísindum við HÍ, helsta fræðilega ráðgjafa Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar.
Stefán braut trúnað með því að rjúfa þagnarskylduna sem fylgir því að sitja fundi með sáttasemjara. Gat Stefán ekki setið á sér og sagði á Facebook þriðjudaginn 28. febrúar:
„AURASÁLIN
Í gærkvöld varði samninganefnd Eflingar hátt í 5 klst. í bið eftir því hvort samninganefnd atvinnurekenda (SA) myndi leyfa settum sáttasemjara að leggja fram svokallaða miðlunartillögu í deilu Eflingar og SA.
Biðin var árangurslaus.
Við dagslok var það mér umhugsunarefni, hversu lengi fólk sem hefur milljónir í laun á mánuði getur rætt um eitt þúsund króna launahækkun til verkafólks - og það án árangurs!
Aurasálin er vissulega verðugt rannsóknarefni fyrir sálfræðinga!“
Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari, sagði í samtali við Heimi Má Pétursson á Bylgjunni þriðjudaginn 28. febrúar þessa frásögn Stefáns ekki rétta en hann ætlaði ekki eins og Stefán að brjóta lög með því að lýsa því sem á fundinum gerðist. Ástráður sagði:
„En ég ætla ekki að gera það sama og Stefán að fara að bera hér einhver vitni um það sem gerist á samningafundum. Þetta bara má ekki gerast og þetta er vís vegur til að hleypa þessari deilu endanlega út af teinunum ef menn ætla að fara þessa leið.“
Vakir ekki einmitt fyrir prófessornum fyrrverandi að hleypa deilunni „endanlega út af teinunum“? Hann vill ekki að samið verði. Hann bjó til þá kenningu á fyrri stigum að vegna þess hve dýrt væri að búa í Reykjavík ætti að semja um hærri laun við Eflingu en um 90.000 aðra launþega sem samþykkt hafa samninga við SA. Þetta setti allt í strand.
Kenning Stefáns verður ekki grundvöllur neins sérsamnings Eflingar en sýnir aðeins að Sólveig Anna er eins og oft áður eins konar strengjabrúða misviturra ráðgjafa – þeir láta misjafnlega mikið fyrir sér fara og sumum kastar hún sjálf út í ystu myrkur eða gefur þeim nýja titla eins og Viðari Þorsteinssyni sem áður var skrifstofustjóri Eflingar en er nú dagskrárstjóri eða fræðslustjóri, það er stjórnar pólitísku aðgerðunum.