25.4.2020 10:21

Eftir-veiru-tíminn skiptir mestu

Í þessu efni hefur tekist að skapa Íslandi samkeppnisforskot miðað við þann árangur sem náðst hefur til þessa. Þetta má sjá í mörgum erlendum fjölmiðlum.

Óhjákvæmilegt er að ræða hve „efnahagspakkar“ ríkisstjórna í krafti skattgreiðenda verða margir til að gera lífvænlegum fyrirtækjum kleift að halda sjó í veiru-faraldrinum. Jafnframt verður þó að velta fyrir sér hvað þurfi til að endurvekja traust viðskiptavina til að framleiðslan verði lífvænleg þegar úrskurðað er að veiran leyfi fulla starfsemi að nýju. Hvað þarf að gera til að kaupendur séu sannfærðir um að sóttvarna sé áfram gætt? Hve langur verður umþóttunartíminn frá heimadvöl til fulls ferðafrelsis?

Spurningar af þessu tagi hlýtur að bera hátt hjá þeim sem eiga allt sitt undir að menn leggist í ferðalög að nýju. Hver verður ímynd landa eða þjóða þegar frá líður og menn velja sér áfangastað? Verður það gert með hliðsjón af því hvernig heilbrigðiskerfi og stjórnvöldum tókst að glíma við veiruna og halda henni í skefjum?

Í þessu efni hefur tekist að skapa Íslandi samkeppnisforskot miðað við þann árangur sem náðst hefur til þessa. Þetta má sjá í mörgum erlendum fjölmiðlum, til dæmis í viðtali sem birtist við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á vefsíðunni spieglonline föstudaginn 24. apríl.

56d94249c3373987f6e5f9a13b2680ffbc0ba70b867a9d63d3bbd4f2114ca742Prófessor Yuval Noah Harari, höfundur bókanna: Sapiens – mannkynssaga í stuttu máli, Homo Deus og 21 lærdómur fyrir 21. öldina, segir í samtali við þýsku fréttastofuna DW, sem lesa má hér:

„Að mínu mati felst mesta hættan ekki í veirunni sjálfri. Mannkynið ræður yfir nægri vísindaþekkingu og tæknilegum úrræðum til að sigrast á veirunni. Stóri vandinn er okkar innri púki, hatur okkar, græðgi og vanþekking.“

Eitt af því sem hann varar við er að veiran verði ríkisvaldinu tilefni til að ganga of langt í eftirliti með einstaklingum og ( opinberri gagnasöfnun með rakningarforriti í síma og segir:

„Önnur aðferð er að láta síma hafa beint samband sín á milli án neins miðlægs aðila sem safnar öllum upplýsingunum. Gangi ég nærri einhverjum með COVID-19 talar sími hans eða hennar við minn síma og ég fæ viðvörunina. Enginn miðlægur opinber aðili safnar öllum þessum upplýsingum og eltir alla.“

Í samtalinu við Der Spiegel er Katrín Jakobsdóttir sérstaklega spurð um þetta atriði enda eru Þjóðverjar sérstaklega viðkvæmir fyrir öllu opinberu eftirliti með einstaklingum, reynslunni ríkari af Stasi kommúnista og Gestapo nazista.

Þýska blaðið nefnir að einkafyrirtækið deCode hafi komið að skimun og spyr hvort Katrín hafi ekki áhyggjur af persónuupplýsingar kunni að hafna á röngum stað.

Forsætisráðherra segir að mikið hafi verið um þetta rætt en Persónuvernd og Vísindasiðanefnd hafi veitt heimild sína og haldi uppi ströngu eftirliti.

Þá spyr blaðið hvort Íslendingar noti einnig með rakningarapp í snjallsímum. Katrín játar því en fólki sé í sjálfsvald sett hvort það nýti sér það auk þess hafi Persónuvernd strangt eftirlit með framkvæmdinni. Hún bendir á að með rakningu hafi í 93% tilvika tekist að finna upptök smitsins.

Der Spiegel skuli gefa til kynna að meiri hætta sé á ferðinni vegna þess að einkaaðili skimi en ekki opinber er í samræmi við gamalgróna tortryggni sem tekist hefur að útrýma hér eins og þátttakan í skimun deCode sýnir, færri komast að en vilja.

Um rakningarappið gegnir öðru máli og hve langt er gengið á þeirri braut. Þar er um utan-húðar-eftirlit að ræða en eins og Harari nefnir er einnig fyrir hendi tækni sem leyfir innan-húðar-eftirlit. Vonandi þarf ekki að feta þá braut til að skapa gagnkvæmt traust á eftir-veiru-mánuðum.