8.3.2020 10:18

Efling semur við ríkið - Kári deilir á Vísindasiðanefnd

Mikil spenna ríkir í samfélaginu um þessar mundir, skynsamlegasta leiðin til að hafa stjórn á henni er að fara að lögum og reglum og semja um úrlausn ágreiningsmála.

Kjarasamningar Eflingar og ríkisins voru undirritaðir um kvöldmatarleytið laugardag 7. mars. Á mbl.is sagðist Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ánægð með samninginn, þótt hún hefði áttað sig á því, eftir að hún tók við formennsku í félaginu, að sér þætti alltaf erfitt að undirrita samninga.

Þessi yfirlýsing Sólveigar Önnu kemur heim og saman við það sem hér hefur verið sagt. Henni er ekkert gefið um að semja enda samrýmist það ekki kenningunni um byltingu. Á ruv.is er haft eftir Eflingarformanninum:

„Ég mun mæla með þessum samningi við mína félagsmenn enda eru í honum mikilvæg skref í átt að því sem Efling hefur sóst eftir í viðræðum við ríki og sveitarfélög.“

Sólveig Anna lýsir samningnum ekki lengur sem vopnahléi eins og lífskjarasamningnum fyrir tæpu ári.

Engar fréttir hafa borist af niðurstöðu viðræðna Sólveigar Önnu við Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Að skrifa undir samning við Dag er ef til vill of stór biti fyrir Eflingarformanninn.

88273533_2031505936995358_2913429389511229440_oSólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Ólason, sérfræðingur hjá Eflingu, skrifa undir samning við ríkið 7. mars 2020. (Mynd: Efling).

Samskipti Sólveigar Önnu og Dags B. minna á gamalgrónar deilur Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, við Vísindasiðanefnd. Kári boðaði síðdegis laugardaginn 7. mars að hann vildi leggja sitt lóð á vogarskálina við skimun vegna kórónaveirunnar og sendi erindi til Persónuverndar sem Helga Þórisdóttir, forstjóri hennar, segir að hafi gefið „til kynna að það væri tvíþætt og fæli annars vegar í sér heilbrigðisþjónustu, sem ekki kallar á aðkomu persónuverndar, og hins vegar kynni að vera um að ræða vísindarannsókn á heilbrigðissviði, sem væri þá háð leyfi Vísindasiðanefndar.“ Boðaði hún Kára flýtimeðferð á umsókn hans, niðurstaða lægi fyrir þriðjudaginn 10. mars. Kári taldi sig hins vegar ekki hafa sótt um neitt leyfi til vísindarannsóknar, hann hefði viljað þjónusta heilbrigðiskerfið.

Vegna þessa sagði Kári Stefánsson meðal annars á Facebook að hjá talsmanni Vísindasiðanefndar endurspeglaðist „afstaða sem við hjá Íslenskri erfðagreiningu höfum þurft að takast á við síðastliðin 23 ár sem er að það sem við séum að gera sé á einhvern máta grunsamlegt og ljótt og beri að skoða öllu öðru betur þrátt fyrir að við höfum lýst því betur á prenti en nokkru öðru því sem gert er á Íslandi. Við lýst því í sex hundruð vísindagreinum.“

Engum er ráðlagt að blanda sér í þessar viðkvæmu deilur að óþörfu en heilbrigðisráðherra, sóttvarnalæknir, landlæknir og margir fleiri vilja að sjálfsögðu liðveislu Íslenskrar erfðagreiningar innan ramma gildandi laga.

Undrun vekur hve margir sjá ástæðu til þess vegna þessa misskilnings að fara ófrægingarorðum um þá sem sitja í Vísindasiðanefnd. Eina sem hefur komið fram af hálfu nefndarinnar er boð um flýtimeðferð falli umsókn innan verksviðs hennar.

Mikil spenna ríkir í samfélaginu um þessar mundir, skynsamlegasta leiðin til að hafa stjórn á henni er að fara að lögum og reglum og semja um úrlausn ágreiningsmála.