12.1.2023 10:06

Efling ein á báti

Niðurrifsstefnan sem birtist í störfum og orðum Sólveigar Önnu er í anda þeirra sem telja byltingu nauðsynlega til að leggja grunn að nýju samfélagi.

Það vakti reiði hjá Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í vikunni að Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), benti á að í 50 manna samninganefnd Eflingar væru allmargir sem ættu ekkert erindi við SA í kjaraviðræðum. Opinberir aðilar væru launagreiðendur og viðmælendur þeirra um kaup og kjör. Hópur þannig skipaður sleit þó viðræðunum við SA.

Innan samninganefndar Eflingar var ekki samstaða um viðræðuslitin og aðgerðir sem miðuðu að verkföllum. Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, á sæti í samninganefndinni samkvæmt lögum Eflingar. Sólveig Anna bannar henni hins vegar að mæta á fundi nefndarinnar eða að taka þátt í vinnu á vegum hennar. Ólöf Helga var ósammála ákvörðuninni um að slíta viðræðunum.

1387861Til að efla samkenndina í samninganefnd Eflingar klæðist hún í einkennisbúningi (mynd: mbl/Eggert Jóhannesson).

Halldór Benjamín lýsti þeirri skoðun hér í blaðinu 11. janúar að Efling væri að verða „einhvers konar eyland“. Undir stjórn Sólveigar Önnu ætti félagið í útistöðum við stjórnvöld, félagsdóm, eigið starfsfólk, fyrrv. trúnaðarmenn á skrifstofu Eflingar, Samtök atvinnulífsins og nú síðast ríkissáttasemjara. Framkvæmdastjórinn klykkti út með þessum orðum:

„Það er stundum sagt að þegar fíflunum í kringum mann fjölgi þá sé tímabært að líta í spegil.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði um ákvarðanir forystumanna Eflingar að „einfaldi sannleikur málsins“ væri sá að þeir stefndu eingöngu í verkfall vegna þess að þeir vissu að það yrði tjón af því.

Þetta er harður dómur. Niðurrifsstefnan sem birtist í störfum og orðum Sólveigar Önnu er í anda þeirra sem telja byltingu nauðsynlega til að leggja grunn að nýju samfélagi. Lengst náði þessi stefna í Kambódíu á 20. öldinni. Þar var tímatalið núllstillt og þeim rutt úr vegi sem ekki vildu laga sig að nýrri þjóðfélagsgerð.

Í upptalningu Halldórs Benjamíns hér að ofan lætur hann þess ógetið að Efling og Sólveig Anna hafa einangrast innan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar.

Ein af uppfinningum, Stefán Ólafssonar, fyrrv. prófessors, ráðgjafa Eflingar er að félagsmenn hennar eigi kröfu til þess sem þeir kalla „Reykjavíkurálagið“, það sé dýrara að lifa í Reykjavík en annars staðar í landinu og verkafólk þar eigi því rétt á staðaruppbót í launaumslagið.

Björn Snæbjörnsson er formaður Einingar-Iðju, verkalýðsfélags á Norðurlandi og eins stærsta aðildarfélags Starfsgreinasambandsins, sagðist ekki muna eftir að höfuðborginni hefði áður verið egnt gegn landsbyggðinni í baráttu fyrir bættum kjörum verkafólks.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík, sagði sorglegt og til skammar að Efling stillti láglaunafólki í Reykjavík upp á móti láglaunafólki utan höfuðborgarsvæðisins. Hann mundi aldrei styðja samúðarverkfall sem yki fátækt á landsbyggðinni.

Sundrung, óvild og valdbeiting er einkenni verkalýðsbaráttu Sólveigar Önnu og til að ná þessu fram einangrar hún Eflingu.