Efla verður landamæravörslu
Telur Einar réttilega að ekkert hafi orðið Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptara en það sem hann kallar „dekur“ við ólöglega hælisleitendur.
Hér hefur margoft verið hvatt til þess að landamæravarsla sé aukin á Keflavíkurflugvelli og raunar hvarvetna á landinu. Jafnframt hefur þeirri skoðun verið hreyft að taka eigi stjórn þessara mála úr höndum héraðslögreglustjóra og færa hana til embættis ríkislögreglustjóra. Loks hefur því verið mótmælt að Schengen-reglur eða aðild að því samstarfi komi í veg fyrir önnur og skilvirkari vinnubrögð við landamæravörsluna.
Til þessa hafa allar tillögur um nýskipan landamæravörslunnar fallið í grýttan jarðveg innan dómsmálaráðuneytisins. Nú er málinu enn hreyft hér á síðunni vegna greinar sem Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður birtir í Morgunblaðinu í dag (1. júlí).
Þar segir hann að öll Norðurlönd haldi uppi landamæravörslu nema eitt. Og þau hafi að auki strangari lagaramma en hér gildi. Ísland geri þetta ekki þrátt fyrir ótvíræða heimild í Schengen-samningnum. Hann minnir á að Finnar hafi lokað landamærastöðvum við Rússland vegna misnotkunar á hælisleitendakerfinu.
Einar rifjar upp að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi tæknilegri aðferð verið beitt til að fella úr ályktun fundarins tillögu um að Ísland hæfi landamæravörslu og einnig um að útlendum flugfélögum yrði gert að fara að íslenskum lögum og afhenda farþegalista.
Telur Einar réttilega að ekkert hafi orðið Sjálfstæðisflokknum dýrkeyptara en það sem hann kallar „dekur“ við ólöglega hælisleitendur sem kosti þjóðarbúið tugi milljarða ár hvert.
Í greininni vitnar Einar til þess að þáverandi dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson hafi sagt á landsfundinum að það sé niðurstaða dómsmálaráðuneytisins að hert landamæravarsla hafi „enga þýðingu“.
Segist Einar hafa gengið í öflun skjala til að lesa sér til „um rannsóknir og niðurstöðu ráðuneytisins“. Sama hafi hann gert varðandi flugfarþegalista sem útlend flugfélög neiti að afhenda. Í ljós hafi komið að hvorki dómsmálaráðuneytið né ríkislögreglustjóri eigi „pappírssnifsi“ þar sem rökstudd afstaða sé tekin til lokunar landamæra. Ráðuneytið hafi einfaldlega ekki skoðað kosti þess og galla með formlegum hætti en fullyrði samt, gagnstætt öðrum löndum, að lokunin sé gagnslaus. Skatturinn neiti að afhenda gögn varðandi farþegalistana þar sem um „viðskiptaleyndarmál“ sé að ræða.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagt að framkvæmd landamæravörslunnar sé til athugunar.
Hér skal enn áréttuð sú skoðun að landamæravarslan verði færð til embættis ríkislögreglustjóra og hert í samræmi við opinbert áhættumat og á grundvelli aukins gagnsæis. Meiri upplýsingamiðlun um þennan mikilvæga þátt við öryggisgæslu landsins er ekki aðeins sjálfsögð vegna þeirra sem landið byggja heldur ætti hún að hafa fælingarmátt gegn smyglurunum sem hafa gífurlegar tekjur af því að lauma fólki til landsins.