9.8.2019 10:42

EES-valdaframsal ákveðið árið 1992

Alþingi samþykkti þetta framsal með skýrum meirihluta enda brýtur það ekki í bága við stjórnarskrána.

Þegar utanríkismálanefnd alþingis fjallaði um EES-samninginn árið 1992 var mikið rætt um aðildina og stjórnarskrána. Fyrir nefndina voru lögð eftirfarandi meginsjónarmið varðandi lögfræðileg álitaefni sem snertu þennan þátt:

  • 1. Aðild að feli ekki í sér neitt afsal á íslensku ríkisvaldi af því að ákvörðunarvaldið, sem stofnunum EFTA eða EB sé veitt með EES-samningnum, tilheyri ekki íslenska ríkisvaldinu.
  • 2. Það sé íslensk réttarregla að við sérstakar aðstæður beri að beita erlendum réttarreglum hér á landi; dæmi séu til þess að ákvarðanir erlendra stjórnvalda gildi hér og að þær séu aðfararhæfar; dæmi séu til þess að erlenda dóma megi framkvæma hér; vald það, sem alþjóðastofnunum sé ætlað með EES-samningnum, sé vel afmarkað, það gildi á takmörkuðu sviði og sé ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Með vísan til þessa brjóti aðild að EES-samningnum ekki í bága við stjórnarskrána.
  • 3. Með EES-samningnum sé stofnunum EFTA og EB falið svo mikið framkvæmdarvald og dómsvald að það samræmist ekki 2. gr. stjórnarskárinnar að framselja það úr landi.

Althingi-framanÍ áliti meirihluta nefndarinnar var meðal annars vísað til greinar sem Atli Harðarson heimspekingur ritaði í Lesbók Morgunblaðsins í október 1992 undir fyrirsögninni: Hvers virði er fullveldi? Þar sagði höfundurinn m.a.:

„Konungseinveldi og kaupauðgisstefna eru svo úreltar stefnur sem nokkrar stjórnmálastefnur geta verið. En hvað með fullveldið? Er það ekki úrelt líka? Er ekki augljóslega þörf á alþjóðlegri yfirstjórn t.d. yfir umhverfismálum og eftirliti með vígbúnaði? Er lengur hægt að gera greinarmun á innanríkismálum og alþjóðamálum þegar iðnaður í einu ríki veldur súru regni í því næsta?“

Þessar spurningar Atla eru jafnvel brýnni núna en fyrir 27 árum. Í gær (8. ágúst 2019) boðuðu til dæmis sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna að með alþjóðaátaki ætti að minnka kjötneyslu mannkyns til að sporna gegn hlýnun jarðar.

Meirihluti utanríkismálanefndar valdi kost 2 hér að ofan: vel afmarkað valdaframsal á takmörkuðu sviði án þess að vera verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Alþingi samþykkti þetta framsal með skýrum meirihluta enda brýtur það ekki í bága við stjórnarskrána.

Þegar nú er látið eins og þáttaskil hafi orðið í fullveldismálum vegna þátttöku Íslendinga í orkusamstarfi innan EES og vá sé fyrir dyrum vegna valdaframsals er ekki aðeins um blekkingariðju að ræða heldur tilraunir til sögufölsunar.