21.10.2019 9:53

EES-skýrsla í samræmi við erindisbréf

Um leið og vinsamleg orð Elíasar um skýrsluna eru þökkuð er óhjákvæmilegt að mótmæla því að skýrslan sé ekki í samræmi við erindisbréf Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifar um EES-skýrsluna í Morgunblaðið í morgun (21. október) og segir í upphafi greinar sinnar:

„Skýrslan er mjög gott yfirlit um sögu og starfsemi innan EES-samstarfsins og þannig mikil fengur að henni. Hún er einnig vel skrifuð og læsileg. Það sem stingur í stúf er að þetta er ekki skýrslan sem Alþingi bað um og ráðherra lagði upp í erindisbréfi sínu.“

Um leið og vinsamleg orð Elíasar um skýrsluna eru þökkuð er óhjákvæmilegt að mótmæla því að skýrslan sé ekki í samræmi við erindisbréf Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Fullyrðing í þá veru stenst alls ekki.

SkGuðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tekur við EES-skýrslunni 1. október 2019.

Í erindisbréfinu segir að tekið skuli saman yfirlit og lagt mat á þann ávinning sem Ísland hafi haft af þátttökunni í EES-samstarfinu og helstu úrlausnarefni sem stjórnvöld hafi tekist á við í framkvæmd EES-samningsins.

Í öðru lagi bar starfshópnum að leggja mat á innleiddan lagaramma á Íslandi vegna EES-samningsins og greina að auki viðskiptalega, efnahagslega, pólitíska og lýðræðislega þætti.

Í þriðja lagi skyldi litið til þróunar í samskiptum EES/EFTA-ríkjanna og ESB. lagt skyldi mat á breytingar vegna brexit og litið til stöðu samskipta ESB og Svisslendinga.

Í fjórða lagi skyldi taka mið af fyrri skýrslum um samskipti Íslands og ESB.

Í fimmta lagi skyldi tekin saman heimildaskrá um skýrslur og fræðiritgerðir sem tengjast aðild Íslands að EES-samningnum.

Ef Elías telur að starfshópurinn hafi ekki farið að þessum óskum í erindisbréfi utanríkisráðherra við gerð skýrslu sinnar væri æskilegt að fá nánari útlistun á því en kemur fram í grein hans.

Misskilningur Elíasar á erindisbréfi og umboði starfshópsins er reistur á fullyrðingu hans birtist í þessum orðum: „Alþingi bað um skýrsluna í tengslum við orkupakkamálið svonefnda, en umræður um það mál þóttu oft varpa vissum skugga á EES-samninginn.“ Þetta er ekki rétt. Sé greinargerðin með beiðni þingmannanna 13 sem báðu utanríkisráðherra um EES-skýrsluna lesin sést að þar er hvergi minnst á þriðja orkupakkann. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir:

„Einsýnt er að það er orðið mjög áríðandi fyrir íslenska hagsmuni að gerð verði svipuð úttekt [og birtist í norskri skýrslu árið 2012] á afleiðingum og virkni EES-samningsins hér á landi. Það væri við hæfi að gera þessa úttekt í ljósi þess að um næstu áramót verða liðin 25 ár frá gildistöku EES-samningsins. Ítarlegt og vandað stöðumat á EES-samningnum yrði aukinheldur verðugt framlag nú þegar Íslendingar minnast 100 ára afmælis fullveldis landsins.“

Þetta birtist 28. mars 2018 á vef alþingis, áður en þriðji orkupakkinn varð að pólitísku hitamáli. Hann var ekki kveikjan að skýrslubeiðninni.

Skýrslan var ekki samin með þriðja orkupakkann sem leiðarljós eða deilur vegna hans en gerð er grein fyrir gangi þess máls í rammagrein í skýrslunni.

Elías hefur áhyggjur af því að ESB seilist til ráða yfir orkuauðlindum Íslands. Í skýrslunni kemur fram að í EES-samningnum er ekki nein fótfesta fyrir slíkri ásælni. Samningurinn takmarkar ekki heldur á neinn hátt rétt okkar til að nýta orkuauðlindirnar. Það er og verður skylda íslenskra stjórnvalda að standa vörð um þann rétt. Í skýrslunni eru einmitt lagðar fram tillögur í nokkrum liðum um hvernig best er að standa að réttargæslu í nafni fullveldis þjóðarinnar.