2.8.2019 9:45

EES-orkustefna og loftslagsbreytingar

Fylgni er á milli þess að vilja virða IV. viðauka EES-samningsins um orkumál að vettugi og andmæla kenningum um loftslagsbreytingar.

Fylgni er á milli þess að vilja virða IV. viðauka EES-samningsins um orkumál að vettugi og andmæla kenningum um loftslagsbreytingar.

Í Fréttablaðinu í dag (2. ágúst) birtist niðurstaða könnunar um viðhorf Íslendinga til loftslagsbreytinga. Um 87% telja loftslagsbreytingar af mannavöldum staðreynd. Mestu efasemdirnar um þetta er að finna meðal stuðningsmanna Miðflokksins og Flokks fólksins, flokkarnir leggjast báðir gegn þriðja orkupakkanum.

Nánast allir stuðningsmenn Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar og Viðreisnar, eða á bilinu 97 til 99 prósent, eru mjög eða frekar sammála því að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd. Tæplega 84 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins og tæp 80 prósent Sjálfstæðismanna eru því sammála.

LoftEfasemdir um loftslagsbreytingar af mannavöldum er nánast eingöngu að finna meðal stuðningsmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Þannig er rúmur fimmtungur Miðflokksfólks frekar eða mjög ósammála og rúm 28 prósent kjósenda Flokks fólksins. Tæp 57 prósent stuðningsmanna Miðflokksins eru frekar eða mjög sammála og um tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum Flokks fólksins.

Í aldurshópnum 18-24 ára eru 83 prósent mjög sammála fullyrðingunni og rúm tólf prósent frekar sammála. Enginn sem svaraði í þessum aldurshópi sagðist ósammála.

Í elsta aldurshópnum sem er fólk 65 ára eða eldra er rúmt 41 prósent mjög sammála fullyrðingunni og tæp 30 prósent frekar sammála. Þá reynast tæp 13 prósent ósammála fullyrðingunni.

Könnunin var framkvæmd 24.- 29. júlí síðastliðinn og var send á tvö þúsund einstaklinga í könnunarhópi Zenter rannsókna. Svarhlutfallið var 51 prósent en gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

Öðrum verður látið eftir að dæma hvort könnunin er marktæk. Hún gefur hins vegar vísbendingu og miðað við það sem aðrar kannanir sýna er nærtækt að álykta eins og hér er gert um að fylgni sé milli vantrúar á loftslagsbreytingum af mannavöldum og andstöðu við orkustefnuna á EES-svæðinu. Fjórði orkupakkinn tekur enn ríkara tillit til markmiða í loftslagsmálum en fyrri pakkar sem snúast um markaðs- og tæknimál.

Loftslagsmál setja sterkan, mótandi svip á allt alþjóðasamstarf um þessar mundir og víða er það skilgreint sem hluti af trumpisma að spyrna gegn fullri og virkri aðild að þessu samstarfi. Má rekja það til andstöðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við þátttöku í framkvæmd Parísarsamkomulagsins svonefnda.

Helsti foringi andstöðunnar við aðild Íslands að evrópsku orkustefnunni, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti nýlega efasemdargrein um áhrif manna á loftslagsbreytingar í Morgunblaðinu. Viðhorf formannsins er í anda meginstefnu hans um að allt sé öðrum að kenna. Hann reynir meira að segja að heimfæra kenninguna á ósiðlega framkomu flokksbrodda sinna á Klausturbar 20. nóvember 2018.