EES-heilbrigðisreglur gilda um innflutt kjöt
Á árinu 2019 hefur í senn tekist að laga íslensk lög um innflutning á landbúnaðarvörum að EES-heilbrigðisreglum en jafnframt tryggja að fylgt skuli nýjum öryggisreglum.
Í nýrri skýrslu um EES-samstarfið er ítarlega sagt frá innflutningsbanninu á hráu kjöti sem gilti við aðild Íslands að EES-samningnum 1994. Smám saman tengdist Ísland EES-löggjöfinni um dýraheilbrigði og skipti þar mestu að tryggja frjálst flæði íslenskra sjávarafurða inn á sameiginlega markaðinn. ESB hætti að senda hingað eftirlitsmenn til að gera úttekt á fiskvinnslufyrirtækjum og ekki var lengur skylt að senda íslenskar sjávarafurðir um tilteknar hafnir inn á markaðinn. Eigendur veitingastaða eða fiskbúða gátu pantað fisk beint héðan frá seljanda sem þeir þekktu og treystu.
Um aldamótin reyndi mjög á heilbrigðisreglurnar gagnvart Íslandi þegar kúariðan gekk yfir og ótti vaknaði við að nota fiskimjöl sem dýrafóður. Kostaði mikið pólitískt átak bæði gagnvart ESB-yfirvöldum og einstökum ESB-ríkjum að fá samþykki fyrir sölu á fiskimjöli til að fóðra önnur dýr en jórturdýr.
Vegna kúariðunnar voru dýraheilbrigðisreglur
ESB hertar. Leiddi þetta til langra umræðna hér um innleiðingu þeirra. Árið
2009 var þannig að henni staðið að um augljóst brot á EES-reglum var að ræða
eins og sannaðist þegar mál töpuðust bæði fyrir EFTA-dómstólnum og hæstarétti.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brást við dómunum og flutti 30. mars 2019 frumvarp til laga um innflutning búfjárafurða. Brugðist var við ólögmætu ástandi sem braut gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Yrði lögum ekki breytt væri „vísvitandi verið að viðhalda ólöglegu ástandi“. Jafnframt samþykkti þingið aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi.
Frumvarpið varð að lögum 20. júní 2019 með stuðningu 47 þingmanna gegn 7 atkvæðum miðflokksmanna sem tengdu innflutningsmálið og þriðja orkupakkamálið þegar þeir máluðu EES-samstarfið svörtum litum. Lögin taka gildi 1. janúar 2020. Undanfarið efur verið unnið að aðgerðaáætluninni um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.
Mikilvægur áfangi náðist í því efni þegar sameiginlega EES-nefndin samþykkti 25. október 2019 að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar heimild íslenskra stjórnvalda til að beita reglum um viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna innflutnings á svína- og nautakjöti. Þessum matvælunum skal alltaf fylgja vottorð reist á salmonellu rannsóknum til að sýna að hún hafi ekki greinst. Án slíks vottorðs verður innflutningur ekki heimilaður.
Í upphafi árs 2019 samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar gagnvart innfluttu kjúklingakjöti, kalkúnum og eggjum. Í september sl. undirritaði Kristján Þór reglugerð sem kveður á um innleiðingu þeirra.
Á árinu 2019 hefur í senn tekist að laga íslensk lög um innflutning á landbúnaðarvörum að EES-heilbrigðisreglum en jafnframt tryggja að fylgt skuli nýjum öryggisreglum í stað þeirrar reglu að kjöt skyldi fryst til að eyða grun um smithættu.
Þetta er í raun gjörbylting á stöðu íslensks landbúnaðar innan EES-samstarfsins. Undanþágan sem gilt hefur vegna hans frá 1994 er úr sögunni.