26.10.2019 10:28

EES, erfingjavandinn og sveitirnar

Að kenna EES-aðildinni um það sem mönnum þykir miður á þessu sviði og öðrum er ekki annað en leit að einhverju skjóli fyrir eigið aðgerðaleysi.

Eitt af því sem menn tengja gjarnan aðildinni að EES er að útlendingar kaupi land hér. Ekkert í EES-samningnum bannar íslenskum stjórnvöldum að setja skilyrði um kaup og sölu á landi. Meginkrafan er að allir sitji við sama borð en unnt er að setja skilyrði sem styðjast við skýra og rökstudda innlenda hagsmuni, hvort sem menn kalla þau „tæknileg“ eða eitthvað annað.

Að kenna EES-aðildinni um það sem mönnum þykir miður á þessu sviði og öðrum er ekki annað en leit að einhverju skjóli fyrir eigið aðgerðaleysi. Fyrir þeim sem þannig tala kann þó einnig að vaka að gefa ranga mynd af EES-samstarfinu til að grafa undan því.

Í þeim anda er fullyrðing um að „allur þorri“ laga hér komi „frá skrifstofumönnum í Brussel“. Í nýrri skýrslu um EES-samstarfið í 25 ár er birtur listi yfir lög sem hér hafa verið sett með beinar rætur í EES-samninginn og viðauka hans á árunum 1992 til 2019. Þegar þessir lagabálkar eru taldir og lög sem alþingi hefur sett á sama tíma kemur í ljós að EES-hlutfallið er 16%. Að kalla þetta hlutfall „allan þorra“ settra laga hér er einfaldlega rangt.

Forsida_20.tbl._2019Þá er einnig rangt að kenna ESB-löggjöfina við „skrifstofumenn í Brussel“. EES/EFTA-ríkin eiga rétt til þátttöku í mótun þessarar löggjafar bæði í sérfræðingahópum og í lagasetningarnefndum sem starfa á vegum ESB. Mörg dæmi má nefna um það hvernig íslensk sjónarmið hafa verið tekin til greina séu þau kynnt á réttum tíma, með réttum rökum og á réttum vettvangi.

Á forsíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins (24. október) er aðalfyrirsögnin: Erfingjavandinn er krabbameinið sem smám saman leggur byggðirnar í eyði.

Rætt er við Aðalstein Jóhannes Halldórsson, bónda á Ketilsstöðum á Tjörnesi. Hann segir innbyggt í kerfið að í flestum tilvikum geri eigendur jarða ekki minnstu tilraun til að selja bregði þeir búi vegna aldurs eða áður en eignir ganga til erfingja. Það sé tekin „meðvituð ákvörðun þeirra sem hafa búið á jörðunum, að leggja sína eign í eyði. Þeir sem erfa ætla sér ekki að flytja á ný á heimaslóðir, það er í flestum tilvikum ljóst. Það er skellt í lás á hverjum bænum eftir öðrum, ljósin slokkna, hengilás settur á hliðið. Þetta er undarlegt viðhorf, að vilja sjá eignina sína, sem fólk hefur oftar en ekki búið á til áratuga, verða að eyðibýli,“ segir Aðalsteinn Jóhannes og bætir við:

„Það varð skyndilega allt vitlaust í samfélaginu þegar erlendir auðkýfingar hófu að kaupa jarðir, en flestir horfa í hina áttina þegar jarðir eru skildar eftir til þess eins að fara í eyði.“

Þarna er bent á þá einföldu staðreynd að í umræðum um samskipti við aðrar þjóðir kjósa menn oft ekki að líta í eigin barm og skoða málið í heild heldur vilja kenna öðrum um allt sem þeir telja að miður fari.