7.7.2024 10:41

Dýrkeyptur Farage

Af greininni má ráða að Nigel Farage sé haldinn stórmennskuæði og líti svo á að hann eigi ekkert erindi til samstarfs við Íhaldsflokkinn nema sem leiðtogi hans.

Daniel Hannan (52 ára) var þingmaður breska Íhaldsflokksins á ESB-þinginu frá 1999 til 2020. Hann var eindreginn Brexit-sinni og kom á sínum tíma hingað til að vara við aðild að ESB. Frá 2021 er hann í lávarðadeild breska þingsins sem Baron Hannan of Kingsclere.

Hannan er dálkahöfundur í The Telegraph og fjallar um úrslit bresku kosninganna 4. júlí í grein sinni í dag (7. júlí).

Hann beinir athygli að fjölda kjósenda að baki miklum meirihluta Verkamannaflokksins og minnir á að árið 2017 hafi vinstrisinninn Jeremy Corbyn fengið 12,9 milljón kjósendur til að greiða Verkamannaflokknum atkvæði og 10,3 milljónir árið 2019. Nú takist Sir Keir Starmer aðeins að fá 9,7 milljónir atkvæða.

Screenshot-2024-07-07-at-10.36.19Daniel Hannan.

Hannan segir að á níunda áratugnum hafi breska kosningakerfið, einmenningskjördæmin, gagnast sameinuðum hægrimönnum gegn sundruðum vinstrimönnum. Nú ögri Umbótaflokkurinn með Nigel Farage í broddi fylkingar Íhaldsflokknum frá hægri og taki fylgi af flokknum.

Umbótaflokkurinn fékk fimm þingmenn kjörna en kostaði Íhaldsflokkinn meira en 100 þingsæti, segir Hannan. Hann segir að samtals hafi hægri flokkarnir tveir fengið 126 þingmenn og 10,6 milljónir atkvæða en Verkamannaflokkurinn 411 þingmenn og 9,7 milljónir atkvæða.

Af greininni má ráða að Nigel Farage sé haldinn stórmennskuæði og líti svo á að hann eigi ekkert erindi til samstarfs við Íhaldsflokkinn nema sem leiðtogi hans í sama anda og Donald Trump hafi tekist að breyta flokki repúblikana í hirð umhverfis snilli sína og hæfni til atkvæðaveiða.

Til marks um óbilgirni Farage segir Hannan frá því að Nigel Farage hafi krafist þess að Umbótaflokkurinn byði fram í kjördæmi íhaldsmannsins og brexistans Jacobs Rees-Moggs, sem er þáttarstjórnandi á GB News-sjónvarpsstöðinni eins og Farage. Jacob Rees-Mogg hafi eitt sinn gengið svo langt að leggja til að Farage yrði innanríkisráðherra í stjórn íhaldsmanna. Ekkert af þessu skipti Farage nokkru. Framboð Umbótaflokksins varð til að Rees-Mogg féll í kosningunum fyrir frambjóðanda Verkamannaflokksins.

Við að segja skilið við stjórnmálaflokk sem menn hafa áður fylgt verða þeir sem hverfa á braut oft hatrammari óvinir gamla flokksins en hefðbundnir andstæðingar sem takast á vegna ólíkra stjórnmálaskoðana. Það eru yfirleitt ekki skoðanir sem verða til flokkaflakks heldur persónuleg viðhorf eða vandræði. Þetta eru menn þó sjaldnast fúsir til að viðurkenna og leitast því við að færa flakkið í hugmyndafræðilegan búning.

Að gefnu tilefni hefur hér verið vakin athygli á kúvendingu í viðhorfi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til ýmissa mála frá því að hann var formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra og þar til hann kúldrast nú í tveggja manna þingflokki með Bergþóri Ólasyni sem yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa tapað í prófkjöri. Þeir eru haldnir þörf fyrir að skapa hirð gagnrýnislausra fylgismanna og vilja örugglega ekki samstarf við neina nema þeir hafi tögl og hagldir fyrir sig og hirð sína hvað sem stefnumálum líður.