Dýr fjörbrot úreltrar stefnu - leiðbeining frá Steingrími J.
Fjörbrot slíkar kerfishugsunar taka á sig ýmsar furðumyndir. Dæmið um liðskiptaaðgerðirnar er ein þessara mynda.
Í Morgunblaðinu birtist miðvikudaginn 10. maí frétt sem hlýtur að gleðja alla sem kjósa frekar biðlista eftir lækningum sem unnt er að stunda utan Landspítalans en að veita heimild til slíkra aðgerða hér á landi.
Fimm sjúklingar sem uppfylltu svokallað biðtímaákvæði í tilskipun evrópska efnahagssvæðisins (EES), sem leyfir sjúklingum að fara í aðgerð á sjúkrahúsi innan EES ef óvenjulega löng bið hefur verið eftir aðgerðinni í heimalandinu fóru í liðskiptaaðgerð í Svíþjóð þriðjudaginn 9. maí eftir að Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu greiðsluþátttöku í aðgerðunum hérlendis. Sótt var um að aðgerðirnar yrðu framkvæmdar á Klíníkinni í Ármúla og til vara á einkareknu klíníkinni Capio Movement í Halmstad í Svíþjóð. EES-biðtímaákvæðið var samþykkt á Íslandi árið 2012 og árið 2016 skilgreindi Landlæknir óvenjulega langa bið eftir aðgerð sem 90 daga eða lengri.
Sjúkratryggingar Íslands greiða allan sjúkrakostnað, ferða- og uppihaldskostnað ásamt kostnaði fyrir fylgdarmann ef þess er þörf.
„Það er alveg augljóst að það er mun dýrari kostur að gera þetta í Svíþjóð en heima í Ármúlanum,“ segir Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir hjá Klíníkinni í Ármúla. Hjálmar var staddur í Svíþjóð með sjúklingunum, sem eru allir á batavegi, og reiknar hann með heimför í lok vikunnar.
Hjálmar reiknar gróflega að kostnaðurinn sé um 80-90% meiri fyrir Sjúkratryggingar Íslands að framkvæma aðgerðirnar í Svíþjóð en á Íslandi.
Rétt er að minnast þess að skattgreiðendur á Íslandi standa að baki Sjúkratryggingum Íslands. Þá er einnig rétt að minnast þess að heilbrigðisráðuneytið hefur talið heimilt lögum samkvæmt að Klínikin sinni þessum verkefnum á hinn bóginn hefur ekki verið samið um greiðslu kostnaðarins við Sjúkratryggingar Íslands. Þar ráða vafalaust pólitísk sjónarmið þeirra sem líta á það sem aðför að íslensku heilbrigðiskerfi að sami læknir og gerir aðgerðirnar í Svíþjóð geri þær með minni tilkostnaði á Íslandi.
Stóra spurningin er hve lengi í ósköpunum þessi úreltu pólitísku viðhorf eiga að ráða við framkvæmd stefnunnar í íslenskum heilbrigðismálum – að láta kerfið njóta meiri réttar en þeir sem leita eftir þjónustu þess.
Fjörbrot slíkar kerfishugsunar taka á sig ýmsar furðumyndir. Dæmið um liðskiptaaðgerðirnar er ein þessara mynda.
Umræðurnar um breytingar á fyrirkomulagi rekstrar á Fjölbrautaskólanum við Ármúla eru annað dæmi um slíka furðumynd. Þær snúast minna um efni málsins, nauðsyn þess að laga framhaldsskólastigið að breyttum aðstæðum nemendum til hagsbóta, heldur en um hitt að menntamálaráðherra taldi rétt að undirbúa málið vel áður en hann hæfi opinberar umræður um það.
Ýmsir hafa tekið til máls um þennan þátt málsins á opinberum vettvangi, þar á meðal Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. fjármálaráðherra, sem í skjóli hrunsins einkavæddi alla banka landsins með því að afhenda þá umræðulaust erlendum kröfuhöfum. Hann skrifaði grein í Fréttablaðið þriðjudaginn 9. maí undir fyrirsögninni: Einkavæðing að næturþeli.
Að óathuguðu máli hefði einhverjum lesanda dottið í hug að nú leysti Steingrímur J. frá skjóðunni um einkavæðingu sína á bönkunum sem að einhverju leyti á að vera ríkisleyndarmál í meira en 100 ár. Grein Steingríms J. lýkur á þessum orðum:
„Bara að þegja algerlega um slíkt fyrir kosningar, jafnvel tala fjálglega um nauðsyn þess að fjárfesta í innviðum samfélagsins og aukinni velferð fyrir kosningar, en sæta svo lagi í skjóli valdanna eftir kosningar. Jafnvel þó taka verði ákvarðanirnar að næturlagi og bak luktum dyrum, er alltaf hægt að vera í útlöndum þegar þar um fréttist.“
Fyrir kosningar 2009 sagði Steingrímur J. að hann ætlaði sko að standa gegn því að sótt yrði um aðild að ESB, hann samþykkti umsóknina 16. júlí 2009. Lokasetninguna má lesa sem leiðbeiningu frá manni með mikla reynslu.