Drottningarmaður kvaddur
Þess er alls staðar getið að samhliða dyggri þjónustu í þágu konungdæmisins og drottningar hafi prins Filippus haldið sjálfstæði sínu og virðingu.
Í danska sjónvarpinu hefur mátt sjá marga sjónvarpsþætti um ævi Henriks prins (1934-2018), eiginmanns Margrétar II. Danadrottningar. Eitt af þemum þessara þátta er reiði prinsins yfir að hafa ekki notið þeirrar virðingar sem honum bar, hann sætti sig ekki við að bera titilinn prins sem eiginmaður drottningar heldur vildi fá titilinn kóngur. Hann lét meðal annars óánægju sína í ljós með því að óska eftir að verða ekki lagður til hinstu hvílu við hlið eiginkonu sinnar.
Engar sambærilegar umræður eru uppi nú þegar prins Filippus, hertogi af Edinborg, eiginmaður Elísabetar II. Bretadrottningar andast 99 ára að aldri. Þess er hins vegar alls staðar getið að samhliða dyggri þjónustu í þágu konungdæmisins og drottningar hafi prins Filippus haldið sjálfstæði sínu og virðingu sem einstaklingur vegna hispurslausrar framkomu sinnar og einlægs áhuga á því sem hann tók sér fyrir hendur. Sagt er að hefði hann ekki gengið að eiga Elísabetu sem dáðist að honum frá að minnsta kosti 14 ára aldri hefði hann orðið flotaforingi. Hann vildi hafa allt á hreinu í samskiptum við aðra, svaraði bréfum samdægurs, tók af skarið án málalenginga og sinnti skyldum sínum óaðfinnalega.
Prins Filippus, hertogi af Edinborg.
Blaðamaðurinn Charles Moore segir í langri grein um hertogann í The Telegraph:
„Þótt prins Filippus væri svona sterkur persónuleiki og hikaði aldrei við að segja skoðanir sínar umbúðalaust gerði hann sér einnig grein fyrir stöðu sinni. Á þeim tæpu 70 árum sem drottningin hefur setið við völd hefur hún fengið í hendur stjórnarráðsskjöl næstum hvern einasta dag. Eiginmaður hennar sá þau aldrei. Hann bað aldrei um að sjá þau, reyndi aldrei að geta sér til um efni þeirra, stundaði aldrei baktjaldamakk. Þótt hann hefði einlægan áhuga á stjórnmálum og opinberum málefnum brá aldrei fyrir neinu sem benti til stuðnings við einhvern stjórnmálaflokk, hann reyndi aldrei að tengja drottninguna einhverju ákveðnu viðhorfi, upplýsti aðra aldrei um hvað hún hugsaði. Hann lét sér einfaldlega nægja að segja henni sannfæringu sína.
Í þingbundinni konungsstjórn er jafnvel eins mikilvægt að gera ekki mistök eins og að framkvæma stjórnarathafnir. Það er rétt að prins Filippus var þekktur fyrir „hvatvísi“ í orðum. Þau féllu ekki að pólitískum rétttrúnaði, þeim var slegið fram, stundum brandarar, oft mistúlkuð af leiðindaskjóðum eða ýkt af blaðamönnum. Þau mátti rekja til óbeitar á kurteisishjali og sérkennilegrar kímnigáfu hans. Alvarleg mistök – að fara út fyrir eigið hlutverk, reyna að beita valdi, spilling, að bregðast skyldu – þau voru aldrei gerð.“
Hertoginn af Edinborg hlýtur lof og virðingu við andlát sitt. Hann lagði sjálfur drög að því hvernig útför sín yrði en henni verður sjónvarpað um heim allan laugardaginn 17. apríl. Kista hans verður meðal annars flutt á Land Rover jeppa sem hann hannaði sjálfur. Síðustu ár sín dvaldist hann í sveitakyrrð og naut þess að sinna jarðrækt og öðrum landbúnaðarstörfum að sið breskra hefðarmanna.