20.2.2021 13:06

Drengir í skólum

Umræðurnar um stöðu drengja í skólakerfinu eru enn háværari en áður og þykir mörgum mjög á þá hallað.

Í tíð minn sem menntamálaráðherra fyrir meira en 20 árum var boðað til fundar í stórum sal á Grand hotel til að ræða stöðu drengja í skólum. Í minningunni er þetta fjölmennasti fundur sem haldinn var um svo sérgreint efni í tíð minni í menntamálaráðuneytinu. Þá þegar gerðu menn sér grein fyrir að nauðsynlegt væri að ræða þetta með aðgerðir í huga. Ég minnist þess einnig að á minn fund komu karlar við kennslu og skólastjórn til að ræða áhrif þess á nemendur að konur væru yfirgnæfandi í kennarastétt.

Þetta var á þeim árum sem ekki þótti nóg að gert til að tryggja hlut kvenna almennt í íslensku samfélagi.

1254755Mynd mbl.is

Allt eru þetta staðreyndir sem ræða verður af sérstakri varúð því að náið er fylgst með orðavali þeirra sem taka til máls um þennan þátt samfélagsins. Enn þann dag í dag þykir líklega hneyksli að líta á jafnréttislög sem barn síns tíma eins og öll löggjöf er.

Ísland er nú í fremstu röð landa þegar lögð er alþjóðleg mælistika á jafnrétti. Umræðurnar um stöðu drengja í skólakerfinu eru hins vegar enn háværari en áður og þykir mörgum mjög á þá hallað.

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er meðal viðmælanda í greinaflokki um málið sem birst hefur undanfarið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og um þessa helgi núna (20. febrúar) segir meðal annars í blaðinu:

„Er ekki tímabært að konur komist til meiri áhrifa í samfélaginu og taki meira til sín á kostnað karla? Gylfi svarar því til að fimmtán ára drengir sem nú sitja á skólabekk beri enga ábyrgð á því hvað fyrri kynslóðir gerðu og fyrir vikið fráleitt að refsa þeim. Þeir voru ekki fæddir þegar hallaði sem mest á kvenþjóðina í námi og starfi. Og þótt meirihluti forstjóra í stórum fyrirtækjum sé enn sem komið er karlar þá réttlæti það ekki að margir ungir menn beri skarðan hlut frá borði. Skólar eiga að höfða jafnmikið til drengja og stúlkna.“

Þá segir einnig:

„Stórir hópar sem búa við skert tækifæri eru frjór jarðvegur fyrir ýmsar öfgahreyfingar í stjórnmálum, reiði og félagsleg vandamál. Gylfi segir hefðbundna stjórnmálaflokkar á Vesturlöndum hafa á liðnum áratugum gert þau mistök að sitja aðgerðalausir á meðan ójöfnuður myndast og hópar dragast aftur úr. Síðan sé hneykslast á fylgi ýmissa stjórnmálahreyfinga sem höfða til reiði þessara hópa í stað þess að taka á rótum vandans sem er ójöfn tækifæri í lífinu.“

Þetta eru alvarlegar ábendingar sem hafa verður að ræða. Fundurinn á Grand hotel um árið var skýrt dæmi um að vilji var til þess að beina athygli að þessu vandamáli og það var gert. Að greiða úr því er hins vegar ekki á færi stjórnmálamanna nema þeir sem á vettvangi starfa veiti þeim ráð og liðsinni.