3.8.2019 11:28

Dómari ýtir undir óvissu

Hlutverk dómara er að setja niður deilur en í O3-málinu kýs dómari að ýta undir stjórnmálalega óvissu.

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari skrifar um þriðja orkupakkann í Morgunblaðið í dag (3. ágúst). Ástæðulaust er að gera athugasemd við að Arnar Þór taki til máls á opinberum vettvangi um viðkvæmt ágreiningsmál eins og þetta. Að dómari ýti undir stjórnmálalega óvissu á þennan hátt er þó óvenjulegt.

Hann hélt fram þeirri meginkenningu að íslenskir skattgreiðendur sætu upp með háar skaðabótakröfur frá erlendum sæstrengsfjárfestum sem fengju ekki að tengja strenginn á Íslandi. Hann hafnar öllum ábendingum um að sviðsmyndin standist ekki bæði vegna íslenskra fyrirvara og ákvæða hafréttarsáttmálans. Á síðari ábendinguna blés hann með þeim rökum að ESB-dómstóllinn tæki ekki mið af sáttmálanum. Nú liggur fyrir að þetta er röng fullyrðing hjá Arnari Þór. Þá er að auki vandséð hvernig þetta mál færi fyrir ESB-dómstólinn ­– það kynni að fara fyrir EFTA-dómstólinn tæki ESA kvörtun til greina (ESA er ekki einu sinni skylt að rannsaka kvörtunina) eða íslenskur dómari leitaði álits EFTA-dómstólsins sem ekki er algengt.
Í grein sinni í dag segir Arnar Þór:

„Ég lít á það sem ógn við borgarlegt frelsi og sem háskalega uppgjöf gagnvart lögunum sem valdbeitingartóli þegar jafnvel lögfræðingar hætta að hreyfa andmælum á þeim forsendum að ákvarðanir um innleiðingu erlendra reglna hafi „þegar verið teknar“ og að okkur beri „að ganga frá þeim formlega“ ef við viljum áfram vera aðilar að EES.“

Telur hann afstöðuna sem hann andmælir þarna „viljalausa þjónkun“. Það má til sanns vegar færa væri lýsing hans rétt. Enginn lögfræðingur hefur farið nánar í saumana á upptöku- og innleiðingarferli EES-gerða en Margrét Einarsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. Læsi Arnar Þór greinar hennar í Tímariti lögfræðinga kynntist hann hvernig alþingi stendur að þessum málum.

Judge1O3 var ekki tekinn upp í EES-samninginn og þar með viðurkenndur þjóðréttarlega af íslenskum stjórnvöldum fyrr en að lokinni meðferð í nefndum alþingis þar sem stjórnlagaþáttur málsins var meðal annars skoðaður. Fyrir upptökuna í maí 2017 hafði alþingi meira að segja tveimur árum áður innleitt hluta O3 í íslensk lög með flýtimeðferð.

Það er á þessum forsendum sem því er haldið fram að innleiðingin sé formleg staðfesting á þjóðréttarlegri skuldbindingu. Hið sérstaka í málinu er að vegna gagnrýni sem vaknaði í mars 2018 létu viðkomandi ráðuneytið O3 að nýju í lögfræðilega skoðun og var niðurstaða hennar sú sama og fyrir upptökuna. Minnihlutaálit Arnar Þórs breytir engu um það. Slík álit eru vissulega algeng í dómum og varpa ljósi á ágreiningsefni en breyta ekki niðurstöðunni.

Að ala á óvissu í þessu máli þjónar pólitískum tilgangi. Að dómari geri það kastar lögfræðilegu ljósi á stjórnmálaþrætu. Þannig hafa umræðurnar verið allt frá árinu 1992 þegar við gengum til EES-samstarfsins. Alþingismenn vissu að í aðildinni fólst takmarkað valdaframsal á afmörkuðu sviði. Enginn hefur sýnt eðs sannað að það raskist við innleiðingu O3 enda er ekkert vald framselt með henni, síst af öllu vald yfir orkuauðlindinni sem fellur ekki undir EES-samninginn frekar en aðrar auðlindir til lands og sjávar.