Dómaraval í Strassborg
Miklu skiptir fyrir framgang einstakra umsækjenda um þetta dómarastarf hvaða þingflokkar á Evrópuráðsþinginu taka þá upp á sína arma.
Nú stendur fyrir dyrum að nýr dómari taki sæti fyrir Íslands hönd í Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) í Strassborg. Róbert Spanó hefur setið þar fyrir Íslands hönd undanfarin ár og meðal annars gegnt embætti forseta dómstólsins eins og frægt varð þegar hann fór í opinbera heimsókn um árið til Tyrklands og sat einkafund með Erdogan forseta. Talsmenn mannréttinda í Tyrklandi gagnrýndu að forseti MDE skyldi veita Erdogan gæðastimpil.
Við stjórnarmyndunina 28. nóvember 2021 voru mannréttindamál flutt úr dómsmálaráðuneytinu í forsætisráðuneytið. Auglýsti það eftir umsækjendum og lýstu þrír áhuga á að fara í nokkur ár til Strassborgar: Jónas Þór Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari og rannsóknarprófessor og Stefán Geir Þórisson, hæstaréttarlögmaður.
Evrópuráðsþingið að störfum í Strassborg.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði fimm manna nefnd til að leggja mat á umsækjendurna. Niðurstaða hennar er að þau séu öll hæf.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins 4. febrúar segir að umsækjendum „skyldi ekki raðað innbyrðis og skyldu ekki sæta frekari samanburði á hæfni.“
Tilnefningunni skal skilað til þings Evrópuráðsins, fyrir 5. maí 2022. Samkvæmt 22. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eru dómarar við Mannréttindadómstólinn kjörnir af þingi Evrópuráðsins af lista með þremur mönnum sem samningsaðili tilnefnir. Fer það kjör fram í júní 2022.
Þrír alþingismenn sitja á þingi Evrópuráðsins fyrir Íslands hönd. Þeir eru Bjarni Jónsson (VG) formaður, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (Pírati) varaformaður og Birgir Þórarinsson (Sjálfstæðisflokki).
Miklu skiptir fyrir framgang einstakra umsækjenda um þetta dómarastarf hvaða þingflokkar á Evrópuráðsþinginu taka þá upp á sína arma. Valið á dómurunum er pólitískt og ekki fer fram frekara mat á hæfni íslensku fulltrúanna en hjá fimm manna nefndinni sem forsætisráðherra skipaði.
Jafnan þegar val stendur um menn í trúnaðarstöður hér eru þeir á vaktinni sem sjá hættur á ferð, eigi yfirlýstur sjálfstæðismaður hlut að máli. Jónas Þór Guðmundsson hrl. er þannig tekinn úr fyrir sviga á vefsíðunni Kjarnanum af því að hann hefur tekið að sér trúnaðarstörf í umboði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Einmitt áherslan á þessi trúnaðarstörf kunna að verða Jónasi Þór til framdráttar í kosningabaráttunni á Evrópuráðsþinginu.
Alls sitja 648 þingmenn á Evrópuráðsþinginu. Mið-hægri flokkar hafa þar mikinn meirihluta. Í vinstri þingflokkunum eru aðeins 192 þingmenn. Þórhildur Sunna situr í þingflokki sósíalista og er endurskoðandi hans samkvæmt vefsíðu flokksins. Hún beitir sér vafalaust fyrir þeim fulltrúa Íslands sem hún telur þjóna pólitískum hagsmunum sínum.
Eftir að fulltrúar einstakra landa eru sestir í dómarasætið í Strassborg setja þeir sig á þann háa hest að geta sagt aðildarþjóðunum hvernig þau eigi að velja dómara í löndum sínum, þar eigi hæfni en ekki pólitík að ráða! Höfum við Íslendingar reynslu af þessu vegna skipunarinnar í landsrétt. Gilti það sem MDE-dómararnir sögðu þá um valið á þeim sjálfum, yrði skarð fyrir skildi.