19.9.2020 11:38

Dómaradauði á ögurstundu

WSJ telur óhjákvæmilegt að nú 45 dögum fyrir kjördag í Bandaríkjunum hefjist titanic fight – gífurleg átök – um eftirmann Ginsburg.

Andlátsfréttin um bandaríska hæstaréttardómarann Ruth Bader Ginsburg (87 ára) sem féll frá föstudaginn 18. september ýtir jafnvel kórónuveirufréttum til hliðar.

Í leiðara bandaríska blaðsins The Wall Street Journal (WSJ) er dómarans minnst af virðingu skoðanir blaðsins og hennar hafi oft verið ólíkar. Blaðið telur óhjákvæmilegt að nú 45 dögum fyrir kjördag í Bandaríkjunum hefjist titanic fight – gífurleg átök – um eftirmann hennar. Þau kunni að afgerandi áhrif á úrslit kosninganna.

Ginsburg var önnur konan í Hæstarétti Bandaríkjanna. Demókratinn Bill Clinton skipaði hana árið 1993. Þá var hún þjóðkunn fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna. Hún ruddi sjálf víða brautina, til dæmis sem fyrsta konan meðal lagaprófessora við Columbia-háskólann.

Im-234160Ruth Bader Ginsburg.

WSJ segir að á undanförnum 15 árum þegar bandaríski hæstirétturinn færðist af hógværð til hægri hafi Ginsburg orðið háværari málsvari vinstrisinnaðra viðhorfa innan réttarins og utan. Þá hafi ýmsir kallað hana Notorious RBG –illræmdu RBG – vegna þess hve ómyrk hún var í máli um hæstaréttinn og stjórnmál. Fyrir fjórum árum baðst hún afsökunar á gagnrýnum ummælum sem hún lét falla um þáv. forsetaframbjóðanda Donald Trump.

Við dauða Ginsburg eru þrír harðákveðnir vinstrisinnar eftir í hópi hæstaréttardómaranna níu. Henni var ljóst hve mikið væri í húfi að þessi hlutföll yrðu ekki til frambúðar. Í bandarísku útvarpsstöðinni National Public Radio var sagt frá því föstudaginn 18. september að Ginsburg hefði lesið eftirfarandi fyrir þegar hún hitti barnabarn sitt Clöru Spera nokkrum dögum fyrir andlát sitt: „Ákafasta (e. most fervent) ósk mín er að enginn komi í minn stað fyrr en eftir að nýr forseti hefur verið settur í embætti.“

Þessi andlátsósk bindur ekki hendur Donalds Trumps forseta. Hann getur tilnefnt forsetaefni þegar hann vill og sent tillögu sína til ákvörðunar öldungadeildar Bandaríkjaþings þar sem flokksmenn forsetans, repúblikanar, hafa 53 atkvæði af 100 og því hreinan meirihluta. Það er undir ákvörðun meirihlutans komið hvenær gengið er til atkvæða um tillögu forsetans.

WSJ segir að repúblikanar hafi tryggt sér áfram meirihluta í öldungadeild þingsins í kosningunum 2018 vegna þess að kjósendum ofbauð á hve svívirðilegan hátt var vegið persónulega að Brett Kavanaugh þegar öldungadeildin samþykkti tillögu Trumps um hann sem hæstaréttardómara.

Fyrir okkur sem búum í landi þar sem látið er eins og unnt sé að finna leið sem tryggir að engin flokkspólitísk sjónarmið eða stjórnmálaviðhorf almennt ráði í dómum eða við val á dómurum er lærdómsríkt að fylgjast með þróuninni í Bandaríkjunum.

Í lok leiðara síns segir WSJ að sorglegt sé að dómskerfið hafi hlotið svo miðlægan sess í bandarískum stjórnmálum, þetta sé hins vegar afleiðing þess að í áratugi hafi þjóðin búið við judicial activism. Á hér að tala um aðgerðarsinna í dómarasætum eða framsækna lögskýringu? Höfum við nærtækt dæmi? Já, innan Mannréttindadómstóls Evrópu.