Doktor í framkvæmd EES-samningsins
Margrét kynnti verkefni sitt vel og skilmerkilega og andmælendur færðu góð rök fyrir athugasemdum sínum en sögðu styrkleika ritgerðarinnar yfirgnæfa veikleikana.
Margrét Einarsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, varði föstudaginn 6. desember doktorsverkefni sitt í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Framkvæmd EES-samningsins af hálfu íslenska ríkisins: Upptaka afleiddrar löggjafar í EES-samninginn og innleiðing í íslenskan rétt. Andmælendur voru Dr. Gunnar Þór Pétursson, framkvæmdastjóri innri markaða hjá ESA og prófessor við Lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Þorgeir Örlygsson, hæstaréttardómari, fyrrv. dómari við EFTA-dómstólinn og fyrrv. prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. Dr. Davíð Þór Björgvinsson, landsréttardómari og rannsóknarprófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, var leiðbeinandi Margrétar.
Athöfnin var vel sótt í hátíðarsal Háskóla Íslands. Margrét kynnti verkefni sitt vel og skilmerkilega og andmælendur færðu góð rök fyrir athugasemdum sínum en sögðu styrkleika ritgerðarinnar yfirgnæfa veikleikana og í lokin afhenti dr. Aðalheiður Jóhannesdóttir, prófessor og deildarforseti Lagadeildar Háskóla Íslands, Margréti doktorsbréfið.
Forseti lagadeildar HÍ lýsir Margréti Einarsdóttur doktor.
Eftir að hafa unnið í eitt ár að úttekt á aðild Íslands að EES og tekið þátt í að skrifa 301 bls. skýrslu um hana var fróðlegra en ella að fylgjast með doktorsvörninni. Ritgerð Margrétar snýr að brýnum viðfangsefnum við framkvæmd EES-samningsins, mikilvægasta og víðtækasta alþjóðasamnings sem Íslendingar hafa gert, samnings sem gjörbreytti íslensku samfélagi.
Í 15 úrbótapunktum sem birtast í EES-skýrslunni segir í punkti 2:
„Binda verður enda á stjórnlagaþrætur vegna EES-aðildarinnar, annaðhvort með því að viðurkenna að hún hafi áunnið sér stjórnlagasess eins og aðrar óskráðar stjórnlagareglur eða með því að skrá ákvæði um aðildina í stjórnarskrána.“
Margrét hallast að því að seinni leiðin sé farin. Þegar hún svaraði spurningu dr. Gunnars Þórs um hvernig mundi orða slíkt stjórnarskrárákvæði kom fram að til hennar hefði verið af forsætisráðherra og öðrum sem ræða endurskoðun á stjórnarskránni með ósk um orðalag til að taka af vafa um stjórnskipulegt gildi EES-aðildarinnar. Að finna það væri hins vegar hægara sagt en gert. Líklega næst aldrei samkomulag um slíkt orðalag.
Hér skal áréttuð sú skoðun að eftir 25 ára EES-aðild og 18 lögfræðiálit sem segja að aðildin brjóti ekki í bága við stjórnarskrána sé tímabært og ekki annað en heilbrigð skynsemi að viðurkenna að aðildin brjóti ekki í bága við stjórnarskrána. Ýta á á deilum um það aftur fyrir sig, taka þennan þátt úr höndum lögfræðinganna enda er hann pólitískur.
Þá ber einnig að viðurkenna að í því felst ekki íhlutun af hálfu ESB gagnvart EES/EFTA-ríkjunum að framselja sérfræðilegt vald til fagstofnana. Þær veita EES/EFTA-ríkjunum og Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) meiri áhrif á þessum sérsviðum en áður. Stofnanirnar gefa tækifæri en ógna ekki.
Í þriðja lagi ber að líta til þess að EES-samningurinn skapar borgurum aðildarríkjanna ný réttindi. Virðing fyrir þeim er ekki brot gegn fullveldi ríkjanna sem mótuðu réttindin með samningi sínum.
Þetta er áréttað hér um leið og dr. Margréti Einarsdóttur eru fluttar hamingjuóskir. Með doktorsritgerð sinni hefur hún fært umræður um EES-aðild okkar Íslendinga á hærra stig.