28.5.2019 9:47

Deilurnar um Notre Dame de Paris

Lagafrumvarpið um endurreisn Notre Dame siglir í gegnum franska þingið. Í Oxford er endurreisninni mótmælt.

Öldungadeild franska þingsins samþykkti í nótt frumvarp Emmanuels Macrons Frakklandsforseta og stjórnar hans um að endurreisa skuli Notre Dame de Paris sem brann 15. apríl á fimm árum. Deildin gerði breytingar á frumvarpinu og fara nú fram viðræður milli fulltrúa beggja deilda franska þingsins um endanlega gerð þess. Forsetinn og stjórnin hafa sitt fram þrátt fyrir gagnrýni um 1.170 sérfróðra manna í opnu bréfi til forsetans.

XVMeca59d2c-80ce-11e9-8ebc-87bb8d94e6a2Úr kirkjuskipi Notre Dame de Paris.

Í Oxford kemur út ritið Torch á vegum Oxford Resarch Centre in the Humanities. Megingrein þess í þessum mánuði skrifar Dr. Amanda Power, aðstoðar prófessor í miðaldasögu í Oxford. Í greininni er lagt til að Notre Dame verði ekki endurreist. Telur höfundurinn að ekkert skuli aðhafst vegna neyðarástandsins í loftslagsmálum.

„Margir á suðurhveli jarðar standa frammi fyrir hruni virks samfélags,“ segir höfundurinn. Þess vegna sé rangt að verja meira en milljarði evra í „vestrænt minnismerki sem stuðlaði að því að skapa þessar aðstæður“.

Notre Dame sé dæmigerður afrakstur kristinna miðaldaríkja sem gerðu atlögu að trúarbrögðum manna utan Evrópu svo að þau gætu „hoggið heilög tré þeirra“ og ráðist inn í lönd þeirra.

Með þessum orðum rökstyður Amanda Power að Notre Dame eigi að standa framvegis sem rúst. „Látum hana standa sem tákn um tjónið á plánetu okkar sem rekja má til afneitunar okkar í loftslagsmálum og umhverfisvernd.“

Þá bendir hún einnig á að elítan sem reisti Notre Dame hafi gengið í loðfeldum sem hafi leitt hörmungar yfir bifur, villiketti „og flest önnur loðdýr stærri en hreysiketti“. Sömu sögu sé að segja um „styrjur og ýmsa villilaxa“.

Tilvitnanir hér eru teknar úr grein sem Charles Moore, rithöfundur og blaðamaður, ritar í nýjasta hefti af The Sepctator þar sem hann segir:

„Eina spurningin sem ég hef áhuga á að leggja fyrir dr. Power er: „Hvers vegna að nema staðar við Notre Dame?“ Það hlýtur að vera kominn tími til þess fyrir Torch að bera eld að miðalda, umhverfisníðingnum sem jafnan er kallaður Oxford-háskóli og flytja síðan fyrirlestra um illsku hans í rjúkandi rústunum.“

Engar fréttir berast frá Frakklandi um að þar vilji menn hafa Notre Dame de Paris fyrir augunum sem minnisvarða um hnignun jarðar. Þvert á móti snýr hugur manna að því að njóta heiðurs af endurreisninni. Þess vegna minna þingmenn stjórnarliða á að kirkjan heiti Notre Dame de Paris en ekki Notre Dame de l’Elysée – það er Notre Dame forsetahallarinnar.