20.11.2018

Deilt um REI árið 2007 - sæstrengur síðan 2012

Ekkert er um einkavæðingu orkufyrirtækja í 3. orkupakkanum frekar en þar er ekki orð um skyldu Íslendinga til að leggja eða taka á móti sæstreng.

Umræðurnar um 3. orkupakkann taka sífellt á sig nýjan svip. Nú stendur það framarlega að með honum sé lagður grunnur að einkavæðingu Landsvirkjunar.

Ekkert er um einkavæðingu orkufyrirtækja í 3. orkupakkanum frekar en þar er ekki orð um skyldu Íslendinga til að leggja eða taka á móti sæstreng.

Á hitt er rétt að minna að hér hafa oft orðið líflegar umræður um hvernig haga skuli eignarhaldi á Landsvirkjun. Harðar deilur urðu um hvort Orkuveita Reykjavíkur ætti að hefja samstarf við innlenda og erlenda fjárfesta, sbr. REI-málið í október 2007 sem sprengdi meirihluta í borgarstjórn þegar sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beittu sér þessari einkavæðingu.

1.BritNed.cable-.width-720Í júní 2012 skipaði Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu, þáverandi iðnaðarráðherra starfshóp sem skyldi kanna þann möguleika að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Evrópu. Hópnum var ætlað að  greina  samfélagsleg og  þjóðhagsleg  áhrif  slíks  verkefnis, tæknileg og  umhverfisleg  atriði ásamt greiningu á lagaumhverfi. Skýrsla starfshópsins birtist um ári síðar, fór fyrir alþingi og var rædd þar, síðan var vinnunni fram haldið og verkefnisstjórn skilaði þáv. viðskipta- og iðnaðarráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sjálfstæðisflokki, skýrslu um málið í júlí 2016. Skýrsluna má finna á netinu.

Í skýrslunni frá 2016 segir meðal annars:

„Það   er   einna   helst   tvennt   sem   skiptir   máli   þegar   horft   er   til hvaða   áhrif   orku- og loftslagsstefna Evrópusambandsins hefur  á  mögulegt  sæstrengsverkefni,  þ.e.  innviðastyrkir og   styrkjakerfi  raforkumarkaða. Áhersla ESB á styrkingum   innviða   er   hluti   af   bættu orkuöryggi ásamt virkari innri markaði fyrir rafmagn. Í dag eru veittir styrkir til mikilvægra PCI innviðaverkefna („Project  of  Common  Interest“). Hugsanlegur  raforkusæstrengur  frá  Íslandi til Bretlands fór inn á þennan PCI lista árið 2015.“

Hér var á dögunum birt mynd af forsætisráðherrunum Sigmundi Davíð og David Cameron frá mars 2016 þar sem þeir staðfestu enn vilja sinn til að vinna að sæstrengsmálum. Hér er nú sagt „enn“ því að fyrir liggur að haustið 2015 ræddu ráðherrarnir einnig þessi mál, en einmitt á því ári var Ísland skráð á ofangreindan PCI-lista.

Þegar spurt er hvers vegna allt þetta sé nú tengt 3. orkupakkanum er svarið einfalt: Tapsárir Norðmenn kveiktu einfaldlega ranghugmyndir hér. Trúin er meiri á sjónarmið norskra einstaklinga hjá sumum en á það sem íslensk stjórnvöld segja. Þá sjá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson sér pólitískan hag af því vegna óvildar í garð samstarfs við ESB að taka u-beygju í þessu máli.