Deilt um hálfunnið Lindarhvolsskjal
Málarekstur fyrir héraðsdómi hefur vakið upp umræður um Lindarhvol ehf. og skjal sem Sigurður Þórðarson skilaði hálfunnu þegar Skúli Eggert varð ríkisendurskoðandi árið 2018.Dwil
Í 1. gr. laga um ríkisendurskoðun frá 2016 segir:
„Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis. Hann er trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins.“
Núverandi ríkisendurskoðandi er Guðmundur Björgvin Helgason, frá 9. júní 2022. Hann tók við af Skúla Eggert Þórðarsyni sem varð ríkisendurskoðandi árið 2018 og tók þá við af Sveini Arasyni sem hafði gegnt embættinu frá árinu 2008 þegar Sigurður Þórðarson lét af því.
Þetta er rifjað upp vegna Lindarhvolsmálsins svonefnda. Lindarhvoll ehf. starfaði frá 2016 til 2018 á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja eftir bankahrunið. Árið 2016 var bókfært virði stöðugleikaeigna 384 milljarðar króna. Árið 2018 var áætlað virði stöðugleikaeigna 460 milljarðar kr. – hafði verðmætið aukist um 75 milljarða við úrvinnslu Lindarhvols ehf.
Málarekstur fyrir héraðsdómi hefur vakið upp umræður um Lindarhvol ehf. og skjal sem Sigurður Þórðarson skilaði hálfunnu þegar Skúli Eggert varð ríkisendurskoðandi árið 2018. Sigurður var fenginn til að taka saman efni um starfsemi Lindarhvols vegna þess að þeir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Þórhallur, stjórnarformaður Lindarhvols, eru bræður.
Vanhæfi ríkisendurskoðanda hvarf þegar Skúli Eggert tók við af Sveini og þar með ástæðan fyrir því að Sigurður héldi verki sínu áfram. Ríkisendurskoðun gaf út fullunna skýrslu: Lindarhvoll ehf. Framkvæmd samnings við umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaeignum í apríl 2020 eins og sjá má á vefsíðu stofnunarinnar.
Á vefsíðunni Vísi í gær ræðir Jakob Bjarnar blaðamaður þetta mál við Guðmund Björgvin núverandi ríkisendurskoðanda sem segir að skjal Sigurðar sé í raun samantekt sem „hefði bara átt að vera send ríkisendurskoðanda sem var að taka við þessu óunna máli. Þessa greinargerð átti ekki að senda neinum öðrum“. Það sé og verði afstaða ríkisendurskoðunar að skjal Sigurðar sé vinnuskjal í skilningi 15. greinar laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Þetta séu lögin sem gildi um þessa greinargerð og þau gangi upplýsingalögum framar. Ríkisendurskoðun birti hálfunnin skjöl ekki opinberlega, það sé einfaldlega brot á lögum.
Það kemur ekki fram í grein Jakobs Bjarnar að sjö sinnum hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd, neitað að opna aðgang að samantekt Sigurðar Þórðarsonar enda sé um vinnuskjal að ræða.
Að þingmenn vegi að heiðri ríkisendurskoðunar, sjálfstæðrar stofnunar á vegum þingsins, á þann hátt sem þeir gera nú í ræðustól þingsins með kröfum um birtingu á skjali Sigurðar Þórðarsonar segir ekki annað en þeir átti sig ekki á hve mikill fengur það þótti og styrkur fyrir alþingi þegar ákveðið var 1986 að ríkisendurskoðun starfaði á þess vegum. Að þingmenn grafi undan tiltrú til ríkisendurskoðunar er í raun aðför að alþingi sjálfu. Skemmdarverk á stofnunum taka á sig ýmsar myndir.