14.6.2021 10:08

Dauðahaldið í grímuna

Hver eru rökin fyrir að skylda fólk í smitlausu landi utan sóttkvíar til að ganga með grímur þegar það sest í sal og hlustar á tónlist eða nýtur leiklistar?

Nú þegar vonandi sést fyrir enda á heimsfaraldrinum hér á landi og skipulega er unnið að því að létta hömlum af okkur mannfólkinu færist lífið stig af stigi í eðlilegt horf. Ferðamenn sjást að nýju á vinsælum stöðum hér á Suðurlandi. Það var til dæmis fjöldi bíla á stæðinu við Seljalandsfoss föstudaginn 11. júní og á hóteli og veitingastöðum á leiðinni frá Höfn í Hornafirði að Hvolsvelli var aðeins talað á ensku við gesti og gangandi.

Undarlegt er að enn skuli haldið í grímuskyldu þegar fólk sest saman á mannfundum eða í jarðarförum. Hvers vegna? Hver eru rökin fyrir að skylda fólk í smitlausu landi utan sóttkvíar til að ganga með grímur þegar það sest í sal og hlustar á tónlist eða nýtur leiklistar? Er grímu krafist til að minna á sóttvarnavaldið? Sé eitthvað nauðsynlegt til þess ættu það að verða „sprittstandar“ í anddyri verslana, veitingastaða og tónlistar-, sýninga- eða fundarsala.

IMG_3540Þessi mynd er tekin í Eyvindarstofu á Blönduósi á fundi um Ræktum Ísland! klukkan 16.00 þriðjudaginn 9. júní. Fundarmenn fóru að fyrirmælum um grímuskyldu, fjarlægðarmörk og skráðu nafn, kennitölu og símanúmer á þar til gerð eyðublöð til geymslu  í tvær vikur að fyrirlagi sóttvarnayfirvalda.

Hver og einn á persónulegar minningar um reynsluna af farsóttarlífinu. Það varð mitt hlutskipti að vinna að tveimur skýrslum á þessum tíma, annarri norrænni og hinni innlendri. Í báðum tilvikum nýttist fjarfundabúnaður með ágætum og þótt vissulega sé mikils virði að hafa tækifæri til að ræða við fólk augliti til auglitis eins og nú við kynningu um land allt á umræðuskjalinu Ræktum Ísland!, má segja að fundir verði oft markvissari og skilvirkari sé til þeirra efnt eftir undirbúning með fjarfundabúnaði. Er ég sannfærður um að sá háttur hverfur ekki við úrlausn margvíslegra verkefna.

Alþingi lauk síðasta fundi fyrir kjördag 25. september aðfaranótt sunnudags 13. júní. Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, sleit fundi með ræðu og vék meðal annars að reynslunni vegna faraldursins:

„Það var 15. mars á síðasta ári sem Alþingi virkjaði viðbragðsáætlun sína við kórónuveirufaraldrinum. Á þeim 15 mánuðum sem liðnir eru síðan, sem er um þriðjungur kjörtímabilsins, hefur heimsfaraldurinn sett mark sitt á störf þingsins og þau um margt verið með óvenjulegum hætti. Engan hefði t.d. órað fyrir því í mars á síðasta ári að nefndarfundir og aðrir vinnufundir þingmanna og starfsfólks ættu eftir að verða fjarfundir næstu 15 mánuði, hvað þá heldur að þingfundasvæðið ætti eftir að ná yfir fjóra hliðarsali í viðbót við þingsalinn. Það sem þó stendur upp úr er að okkur hefur tekist að halda Alþingi starfhæfu allan þann tíma. Í þeim efnum hafa þingmenn og starfsfólk lagst á eitt um að gera slíkt mögulegt og ég vil þakka fyrir það. Jafnframt er ljóst að stórfelld notkun fjarfundatækninnar í þessum faraldri á eftir að hafa varanleg áhrif á starfshætti Alþingis. Það bíður nýrrar forystu hér á þingi að ákveða hvernig Alþingi getur nýtt sér lærdóma af þessari reynslu.“

Þarna er því lýst hvernig tekið var á málum við störf alþingis en málafjöldi þar jókst vegna faraldursins. Þingforseti sagði að á tveimur síðustu löggjafarþingum hefðu 57 lagafrumvörp og tvær þingsályktanir verið samþykktar sem tengdust heimsfaraldrinum. Var þetta hrein viðbót við venjuleg störf þingsins.