Dauðadæmd sameiningaráform
Áformin um sameiningu skólanna eru hins vegar dauðadæmd, vegna aðferðafræði við úrvinnslu og kynningu auk skorts á sannfærandi rökum fyrir að niðurrif rótgróinna skólastofnana bæti menntun.
Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, skrifar fimmtudaginn 7. september 2023 grein á visir.is þar sem hann segir að laust fyrir hádegi þriðjudaginn 5. september hafi kennarar, nemendur og allt starfslið við Menntaskólans á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) fengið tilkynningu í pósti um að skólahald við skólana yrði fellt niður frá kl. 14:00 þann sama dag. Jafnframt var boðað til fundar kl. hálf þrjú um framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Akureyri.
Ásgrímur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra kynnir sameingaráformin í Hofi þriðjudaginn 5. september 2023 (mynd: stjórnarráðið).
Í Hofi, menningarhúsi Akureyrarbæjar, boðaði mennta- og barnamálaráðherra ásamt skólameisturum sameiningu MA og VMA í einn 1800 manna „ofurskóla,“ segir í greininni og jafnframt:
„Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Nemendur skólanna, starfsfólk, foreldrar og bæjarbúar, fyrrverandi nemendur og allir sem láta sig skólamál varða eru slegnir og mjög mikill tilfinningahiti einkennir alla umræðu. Svo mikill er hitinn að fólk missir sjónar á markmiðunum með sameiningunni.“
Greinarhöfundur segir markmiðin birtast í skýrslu stýrihóps ráðherrans um eflingu framhaldsskólastigsins. Þar birtist sú niðurstaða ráðgjafarfyrirtækisins PWC að með fækkun starfa, betri nýtingu kennara og fjölgun í námshópum megi spara allt að 400 m. kr. á ári í rekstrarkostnaði skólanna. Bekkjakerfisskólinn MA með 600 nemendur og áfangakerfisskólinn VMA með 1200 nemendur eru sem sagt óhagstæðar rekstrareiningar að mati stýrihópsins.
Formaður Félags framhaldsskólakennara vekur réttilega máls á því að við snöfurmannlega framkvæmd þessarar skýrslu stýrihópsins sem ber heitið: Efling framhaldsskóla Sviðsmynd 1 Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri hljóti starfsmenn og nemendur smærri framhaldsskóla að sjá sæng sína uppreidda þegar sviðsmynd 2 og síðan fleiri birtast. Allt framhaldsskólakerfið hlýtur að liggja undir í hlutlægu mati ráðgjafarfyrirtækisins. Hvað með framhaldsskólana á Húsavík og að Laugum og Menntaskólann á Tröllaskaga?
Kennarafélag MA lýsti föstudaginn 8. september eindreginni andstöðu við sameiningaráform MA og VMA. Í ályktun félagsins sagði meðal annars að skýrsla stýrihópsins hefði verið unnin „án aðkomu almenns starfsfólks og nemenda skólanna sem um ræðir, þrátt fyrir fögur fyrirheit um samráð og samvinnu“. Þá segir að fjölmargar þversagnir og rangfærslur séu í skýrslunni. Með sameiningunni sé stefnt að niðurskurði meðal annars með fækkun sálfræðinga, námsráðgjafa og kennara.
Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri, segir á vefsíðunni Akureyri.net í dag (10. september) að boðuð sameining VMA og MA sé „aðför að iðnnámi á landsbyggðinni, iðnfyrirtækjum á Norðurlandi og aðför að framhaldsskólanámi í Eyjafirði“ sé tekið mið af kynningu á henni.
Fyrir kemur að ráðherrar sigli af stað með óframkvæmanleg áform í von um aukna fjármuni á fjárlögum. Að stýrihópi og PWC sé beitt í þeim tilgangi gegn MA og VMA er ólíklegt. Áformin um sameiningu skólanna eru hins vegar dauðadæmd, vegna aðferðafræði við úrvinnslu og kynningu auk skorts á sannfærandi rökum fyrir að niðurrif rótgróinna skólastofnana bæti menntun.