22.12.2019 10:16

Dapurleg þröngsýni í auðlindaráðuneyti

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu ríkir álíka mikil þröngsýni og í heilbrigðisráðuneytinu þar sem ofstjórn og ofríki í krafti úreltrar stjórnmálastefnu ræður ferð.

Guðni A. jóhannesson orkumálastjóri flutti jólaerindi fimmtudaginn 19. desember og má lesa það hér.

Orkumálastjóri benti í upphafi máls síns á að almennt væri viðurkennt að ein meginforsenda útflutnings á þekkingu og verkefnum og vörum væri öflugur heimamarkaður sem gæfi tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og þróa áfram þekkingu og reynslu í nærumhverfinu. Í öðrum löndum væru þetta öflugir vaxtarbroddar atvinnulífsins og stutt væri við rannsóknir og innlenda þróun. Hér á landi væri íslenska auðlindaráðuneytið á annarri vegferð. Orkumálastjóri sagði:

„Öll starfsemi þar virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja.

Verkefnaskortur innanlands blasir við okkar helstu rannsóknastofnunum og fyrirtækjum á þessu sviði. Þekking og reynsla sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum brotnar niður í sundurlausan eyjarekstur og frumkvæði okkar og orðspor á alþjóðavettvangi fjarar út. Í stað þess ættum við, með því að byggja á sterkum grunni áframhaldandi verkefna og þróunar, blása til nýrrar og öflugri sóknar á alþjóðavettvangi.“

Þetta er ófögur lýsing á rannsóknar- og þróunarsviði sem áður var mikils metið hér á landi en virðist nú eiga að kæfa á sama tíma og á alþjóðavettvangi er miklu meiri áhersla en nokkru sinni fyrr lögð á að stuðla að umbreytingarverkefnum og orkuskiptum. Alþjóðlegur fjárstuðningur við slík verkefni sem vinna mætti hér á landi er stóraukinn á sama tíma og auðlindaráðuneytið hér sem jafnframt fer með umhverfismál bregður fæti fyrir íslenska aðila.

Gaj-mynd-2019-2Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu ríkir álíka mikil þröngsýni og í heilbrigðisráðuneytinu þar sem ofstjórn og ofríki í krafti úreltrar stjórnmálastefnu ræður ferð. Er dapurlegt að ríkisstjórn sem heppnast hefur jafnvel og raun ber vitni að bæta efnahag þjóðarinnar skuli á sama tíma annars vegar bregða fæti fyrir einkaframtak á sviði heilbrigðisþjónustu og hins vegar grafa undan forystuhlutverki íslenskra vísindamanna og stofnana við leit að nýjum aðferðum til að auka loftslagsgæði.

Á nýlegri ráðstefnu í Madrid sannaðist enn að árangur í loftslagsmálum ræðst ekki af endalausum fundum án niðurstöðu eða stóryrtum yfirlýsingum og hótunum í garð stjórnmálamanna heldur af stuðningi við þá sem vinna í raun að því að bæta gæði andrúmsloftsins sem rannsóknum, þróun og framkvæmdum. Hér leggur auðlinda- og umhverfisráðuneytið stein í götu þeirra sem vinna að slíkum verkefnum vegna pólitískrar þröngsýni.