15.6.2023 10:02

Dapurleg örlög Trumps og Borisar

Sorglegt er að fylgjast með örlögum tveggja fyrrverandi forystumanna lýðræðisþjóða, Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Boris Johnsons, fyrrverandi forsætisráðherra Breta.

Sorglegt er að fylgjast með örlögum tveggja fyrrverandi forystumanna lýðræðisþjóða, Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Boris Johnsons, fyrrverandi forsætisráðherra Breta.

Í Bandaríkjunum sætir Donald Trump ákæru fyrir alríkisdómstóli fyrir að hafa brotið á lagargreinum sem mæla fyrir um harða refsingu fyrir njósnir. Af hirðuleysi eða ásetningi hafði Trump látið hjá líða að fara með trúnaðarskjöl lögum samkvæmt eftir að hann tapaði forsetakosningunum í nóvember 2020 fyrir Joe Biden. Hann er ákærður fyrir ólöglega meðferð þessara skjala.

Hver sá sem les ákæruna hlýtur að spyrja sig hvernig unnt sé treysta þeim fyrir háu embætti sem er sekur um slíkan trassaskap og virðingarleysi gagnvart öryggi þjóðar sinnar. Trump segir þetta hins vegar meiri pólitískar ofsóknir en þekkst hafi áður í sögu Bandaríkjanna – ef ekki mannkynssögunni. Hann stefnir ótrauður í Hvíta húsið að nýju og segist ætla að ná sér niðri á Joe Biden og glæpahyski hans. Trump barðist á sínum tíma gegn Hillary Clinton með kjörorðið Lock her up! á vörunum vegna gagna í tölvu hennar. Hann telur sjálfan sig hafinn yfir lögin.

Í dag (15. júní) birti rannsóknarnefnd neðri deildar breska þingsins, House of Commons Privileges Committee, niðurstöður sínar eftir að hafa kannað hvort Boris Johnson blekkti þingmenn þegar hann skýrði frá samkvæmum í Downing stræti, aðsetri forsætisráðherrans í London, á tíma innilokunar vegna COVID-19 faraldursins.

Boris-johnson-donald-trumpBoris Johnson og Donald Trump

Enska orðið privileges – fríðindi – vísar til sérréttinda sem þingmenn njóta. Þeir verða til dæmis ekki sóttir til saka nema með samþykki þingsins og mega segja það sem þeim býr í brjósti án þess að eiga málsókn vegna meiðyrða yfir höfði sér. Þeir verða þó að segja þingmönnum satt og rétt frá málavöxtum.

Hefði Boris Johnson ekki sagt af sér þingmennsku föstudaginn 9. júní hefði hann orðið að hlíta þeirri niðurstöðu fríðindanefndarinnar að mega ekki starfa í neðri deildinni í 90 daga.

Nefndin telur að Johnson hafi af ásetningi blekkt þingmenn með frásögnum af skemmtanahaldi í Downing stræti.

Boris Johnson segir um nefndina og álit hennar að þar sé um „skrípaleik“ að ræða. Birting nefndarálitsins sé hörmuleg fyrir þingmenn og lýðræðið. Líta beri á álitið „sem lokahnykkinn á hnífnum í langvinnri pólitískri aftöku“.

Stuðningsmenn Trumps og Johnsons taka upp hanskana fyrir sína menn en geta ekki breytt niðurstöðunni, hvorki ákvörðun ákæruvaldsins í Miami né áliti bresku þingnefndarinnar. Átrúnaðargoðin standa frammi fyrir því sem segir í ákærunni og í nefndarálitinu. Trump ætlar að berjast og Johnson segist ætla að snúa aftur.

Við aðstæður sem þessar grípa stuðningsmenn oft til þess ráðs að ráðast á ríkisstjórnina, saksóknara, rannsakendur og þingnefndir. Í stað þess að ræða mál efnislega er rætt um aðferðina og þá sem að málarekstri standa. Hvort það fleytir Trump áfram í kosningabaráttunni eða dugar Johnson til að fella stjórn flokks síns og skapa enn meiri glundroða í breskum stjórnmálum kemur í ljós.