Dapurleg kosningabarátta Kjarnans
Hanna Katrín og ritstjóri Kjarnans létu að því liggja að efnistökin í skýrslunni bentu til þess að ráðherrann væri vísvitandi að villa um fyrir almenningi.
Lítið nýmæli felst í því að þingmenn leggi spurningar og skýrslubeiðni fyrir ráðherra og fái ekki þau svör sem þeir væntu og þess vegna takist þeim ekki að nota þau í sama pólitíska tilgangi og ætlað var. Eitt slíkt mál er á döfinni núna vegna skýrslubeiðni um eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði skýrsluna fram 28. ágúst.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar og fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar, varð fyrir vonbrigðum þegar skýrslan birtist. Sömu sögu er að segja um vefsíðuna Kjarnann sem skipar sér í stjórnarandstöðu við hlið Samfylkingar og Viðreisnar í kosningabaráttunni. Hanna Katrín sagðist hafa beðið um allt annað og hún vissi ekki hvort hún ætti að hlæja eða gráta en veldi samt fyrri kostinn!
Hanna Katrín og ritstjóri Kjarnans létu að því liggja að efnistökin í skýrslunni bentu til þess að ráðherrann væri vísvitandi að villa um fyrir almenningi. Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið og hreinn kosningaáróður eins og sjá má af því sem Kristján Þór Júlíusson birti á FB-síðu sinni föstudaginn 3. september. Þar segir meðal annars:
„Skýrslan var unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samstarfi við Skattinn. Unnið var í opnu gagnsæju ferli milli stjórnkerfisins og Alþingis. Þegar ríkisaðilar telja að vafi leiki á því hvort hægt sé að veita umbeðnar upplýsingar eru gefnar skýringar til Alþingis. Það átti við í þessu tilviki að Skatturinn taldi vafa leika á um hvort persónuverndarlög stæðu því í vegi að tilteknar upplýsingar væri unnt að veita. Þar fyrir utan er ljóst að skipulögð skráning á raunverulegum eigendum hófst ekki fyrr en á árinu 2019 þegar lög um efnið voru samþykkt. Það torveldar upplýsingasöfnun um efnið frá árinu 2016 eins og óskað var eftir í skýrslubeiðninni.
Það er ófaglegt og óviðeigandi af Persónuvernd að saka ráðuneytið, sem gefið hefur skýringar á forsendum upplýsinga sem veittar voru Alþingi, um að leyna upplýsingum eða nota Persónuvernd sem skálkaskjól. Þessu er því alfarið vísað á bug sem hreinum rógburði. [...]
Ef önnur lagatúlkun en sú sem Skatturinn hefur stuðst við getur opnað fyrir frekari upplýsingar frá Skattinum er fullur vilji hjá ráðuneytinu til þess að láta taka þær saman. Slík upplýsingagjöf er þó ávallt háð því að gögnin séu yfir höfuð til eins og áður er nefnt.
Ég hef óskað eftir að ráðuneytið boði fulltrúa Skattsins og Persónuverndar til fundar til að fara nánar yfir þessi atriði og ákveða næstu skref. Þau verða tekin af fagmennsku og virðingu fyrir þeim reglum sem um efnið gilda. Hér eftir sem hingað til.“
Af athugasemd Persónuverndar vegna lagatúlkunar Skattsins er ljóst að hér er um mál að ræða sem hefur ekkert með pólitíska afstöðu ráðherrans að gera þótt Hanna Katrín og ritstjóri Kjarnans reyni að nýta sér ólíkan lagaskilning þessara stofnana í flokkspólitískum tilgangi. Líklega er tilraun þeirra til að afla sér fylgis með þessum hætti dapurlegasti þáttur málsins.