Danskir jafnaðarmenn boða harða útlendingastefnu
Pólítísku afleiðingarinnar af undanlátsstefnunni fyrir þremur árum birtast nú af fullum þunga.
Jafnaðarmannaflokkar í Evrópu en eru aðeins svipur hjá sjón um þessar mundir t.d. á Ítalíu, í Frakklandi og Þýskalandi. Það má meðal annars rekja til veikburða stefnu þeirra í útlendingamálum. Einn evrópsku flokkanna hefur þó frekar sótt í sig veðrið en hitt, það er jafnaðarmannaflokkurinn í Danmörku undir forystu Mette Frederiksen.
Danski flokkurinn hefur varist hruni með harðri afstöðu í útlendingamálum. Í Berlingske í dag (1. júlí) er greint frá því að Mette Frederiksen leiðbeini nú formönnum annarra evrópskra jafnaðarmanna um mótun útlendingastefnu. Hún hélt í júní fund í Amsterdam með leiðtogum flokkanna í Hollandi, Belgíu, Austurríki og Ítalíu. Niðurstaða þeirra var að banna ætti hælisleitendum að fara á milli Evrópulanda með umsóknir sínar, þeir ættu að fara í búðir utan Evrópu og sækja um hæli þaðan. Mette Frederiksen segir að í þessu felist þáttaskil í stefnumótun forystumanna jafnaðarmanna. Í Berlingske fara formenn flokkanna í Belgíu og Hollandi lofsamlegum orðum um framtak danska flokksformannsins.
Danski jafnaðarmannaflokkurinn vill stöðva þessar ferðir yfir Miðjarðarhaf , fólk sæki um hæli í stöðvum utan Evrópu.
Stefna danskra jafnaðarmanna fellur vel að meginniðurstöðu leiðtogaráðs ESB föstudaginn 29. júní. Evrópskar ákvarðanir í þessa veru eru teknar fyrst nú þegar ásókn farand- og flóttafólks gagnvart Evrópu er 96% minni en hún var árið 2015. Pólítísku afleiðingarinnar af undanlátsstefnunni fyrir þremur árum birtast nú af fullum þunga, svo miklum að meira að segja Angela Merkel Þýskalandskanslari missti fótanna án þess þó að stjórn hennar félli.
Hér náðist á sínum tíma sátt allra þingflokka um útlendingastefnu og lög sem voru svo „nútímaleg“ að það þótti sérstakur gæðastimpill að orðið „hælisleitandi“ var afmáð úr lagasafninu! Nú sækja menn ekki um hæli á Íslandi heldur „alþjóðlega vernd“. Milljörðum króna er varið til að standa undir kostnaði við dvöl hundruð eða þúsundir hælisleitenda sem fá aldrei jákvæða afgreiðslu á umsóknum sínum sé lögum og reglum fylgt. Alþingismenn leggja lykkju á leið sína við veitingu ríkisborgararéttar til fólks sem embættismenn neituðu um hæli.
Þessi mál hafa ekki orðið að sérstöku átakaefni í íslenskum stjórnmálum. Reynslan frá meginlandi Evrópu sýnir að pólitísku áhrifin eru síðbúin.