17.6.2024 10:57

Dagur sjálfstæðis

Á þessum sjálfstæðisdegi ber að árétta stuðning Íslendinga við alþjóðalög og þá sem framfylgja þeim gegn ofbeldisfullu útþensluríki í Evrópu.

Lýðveldið Ísland var stofnað fyrir réttum 80 árum á Þingvöllum við Öxará, friðlýstum helgistað þjóðarinnar. Þá voru aðeins liðnir 11 dagar frá því að landganga bandamanna hófst í Normandí og sókn þeirra í austur þar til ríki nazista varð rústir einar og Þjóðverjar gáfust upp 8. maí 1945.

Síðan hefur ekki verið háð landvinningastríð í Evrópu fyrr en nú á okkar tímum þegar Vladimir Pútin Rússlandsforseti beitir rússneska hernum til að leggja undir sig Úkraínu.

Að lokinni annarri heimsstyrjöldinni var Sameinuðu þjóðunum (SÞ) komið á fót en kjarnaatriði sáttmála þeirra er virðing fyrir landsyfirráðarétti og fullveldi allra ríkja. Þetta grunnstef alþjóðalaga var áréttað sérstaklega fyrir Evrópu með Helsinkisáttmálanum frá 1975. Á grunni hans varð til sérstök Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).

Virðing fyrir landsyfirráðarétti, friðhelgi landamæra, felst í því að þjóðríki styðji ekki aðskilnaðarhreyfingar innan annars ríkis eða reyni að knýja fram breytingar á landamærum annarra þjóðríkja hvað þá heldur beiti valdi til að breyta landamærum.

IMG_9959Afrekshugur eftir Nínu Sæmundsson. Afsteypa á Hvolsvelli.

Undir forystu Vladimirs Pútins hafa Rússar brotið gegn öllum þessum grunnreglum alþjóðalaga með innrás og stríði gegn Úkraínu.

Á 80 friðarárum hefur skilningur dofnað á því hve alvarleg aðför Pútins er og hve hrikalegar afleiðingar það hefði fyrir friðsamlega skipan mála í Evrópu og heiminum öllum næði Rússlandsforseti fram vilja sínum með valdbeitingu gegn Úkraínumönnum.

Pútin birti 14. júní fyrstu tillögu sína um grundvöll friðarsamninga: Úkraínustjórn afsali sér ráðum yfir fjórum héruðum, Donetsk, Luhansk, Kherson og Zaporizjzja, auk þess að hverfa frá áformum um aðild að NATO. Þá krefst Pútín þess að vestrið aflétti öllum þvingunum og refsiaðgerðum gegn Rússum.

Daginn eftir komu fulltrúar um 100 ríkja og stofnana (Rússum var ekki boðið) saman á friðarráðstefnu um Úkraínu í Bürgenstock í Sviss. Sunnudaginn 16. var birt lokaályktun ráðstefnunnar þar sem fulltrúar rúmlega 80 ríkja hvöttu til þess að landsyfirráðaréttur Úkraínu yrði lagður til grundvallar við gerð friðarsamnings til að binda enda á stríð Rússa gegn Úkraínumönnum. Er vitnað í sáttmála SÞ til stuðnings þessari kröfu sem gengur gegn frekju Pútins.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sótti friðarráðstefnuna fyrir Íslands hönd og sagði að friðaráætlun Úkraínuforseta væri skýr og réttlát leið að varanlegum friði í Úkraínu. Hún er reist á meginreglunni um friðhelgi landamæra, landsyfirráðaréttinum.

Smáþjóðir eiga allt undir því að þessar alþjóðareglur séu virtar. Tæplega 40 milljónir Úkraínumanna geta ekki óstuddir staðist innrás þrefalt fjölmennari þjóðar sem hefur alþjóðalög að engu.

Á þessum sjálfstæðisdegi ber að árétta stuðning Íslendinga við alþjóðalög og þá sem framfylgja þeim gegn ofbeldisfullu útþensluríki í Evrópu. Í Úkraínu er nú varnarlína allra sem vilja tryggja réttlátan og varanlegan frið.

Gleðilega þjóðhátíð!