Dagur í Dresden
Hér eru nokkrar myndir frá ferð um Dresden í dag, sólin skein og hiti fór yfir 20 gráður.
Stormurinn er vel að baki sagði Júlíus Sigurþórsson, vinur minn á Facebook, í dag (17. september). Hann býr í Wroclaw í Póllandi, skammt frá þýsku landamærunum og tók þátt í að setja sand í poka í varnargarð gegn hugsanlegu flóði.
Júlíus bætti þó við að það væri flóðbylgja á leiðinni frá Tékklandi. Hún kynni að valda vandræðum í Wroclaw. Þetta væri sambærilegt og 1997, þá hefðu nokkur hverfi farið í kaf. Síðan hefðu verið settir upp varnargarðar þar sem verst var (SW hluti borgarinnar) en í raun væri ekki vitað hvaða áhrif það hefði á önnur hverfi. Einnig hefði verið myndað uppistöðulón við árbakkann fyrir ofan borgina sem tæki 185 milljón m3 af vatni. Því hefði verið haldið tómu, en búið væri að opna lokurnar og nú nálgaðist það að verða hálft. Því væri ætlað að taka kúfinn af flóðbylgjunni. Þannig að staðan væri enn góð, hámarki flóðbylgjunar væri spáð snemma að morgni fimmtudags.
Wroclaw er 270 km beint austur af Dresden, þar sem þetta er skrifað, og tekur um þrjár klukkustundir að aka þangað. Hér í Dresden voru menn uggandi yfir að Elbe (Saxelfur) flæddi yfir bakka sína og ylli tjóni. Áin gerði það en tjónið er léttvægt miðað við það sem hér getur og hefur gerst.
Hér eru nokkrar myndir frá ferð um Dresden í dag, sólin skein og hiti fór yfir 20 gráður:
Á milli lands og mannvirkjanna í ánni er akvegur á árbakkanum. Þar ekur enginn núna og skipin sigla ekki með ferðamenn í skoðunarferðir,
Dalurinn í kringum Saxelfi var á heimsminjaskrá UNESCO þar til þessi brú kom til sögunnar. Þá var dalurinn afskrifaður.
Frúarkirkjan í Dresden var sprengd og eyðilögð að verulegum hluta áreið 1945, Á þessari öld var hún enduereist. Hér sést upp undir hvolfþakið.
Í Frúarkirkjunni er þessi risastóra ljósmynd af sprengjurústum kirkju í Kharkiv í Úkraínu. Hún minnir á tvennt: það má endurreisa byggingar verði friður og sprengjuárásir á kirkjur til að slæva baráttuþrek eru forkastanklegar.