4.12.2017 10:25

Dagur B. undir merkjum Samfylkingar vegna Jóhönnu

Nú ræður að sögn Egils Helgasonar minningin um Jóhönnu Sigurðardóttur því að Samfylkingin gengur í endurnýjun lífdaganna og að Dagur B. vill að nýju kannast við flokkinn.

Álitsgjafinn Egill Helgason boðar glaðbeittur á vefsíðu sinni sunnudaginn 3. desember að Dagur B. Eggertsson ætli að „bjóða sig aftur fram til borgarstjóra“. Í þessum orðum felst nýmæli. Það hefur ekki tíðkast hér að menn bjóði sig sérstaklega fram til borgarstjóra heldur að þeir bjóði sig fram til borgarstjórnar og það ráðist síðan af meirihluta innan borgarstjórnar hver verður borgarstjóri.

Egill gengur greinilega að því sem vísu að Dagur verði borgarstjóri hvernig sem mál velkjast og gefur raunar til kynna að hagur Samfylkingarinnar batni nú svo mjög að Dagur B. sjái sér fært að bjóða sig fram í nafni hennar. „Samfylkingin er ekki lengur skammaryrði og feimnismál,“ segir Egill kampakátur og einnig:

„Nú er Samfylkingin orðin stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu og næst stærsti flokkur landsins samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups. Menn gengu nánast út frá því sem vísu um tíma að Vinstri græn yrðu stærri en Samfylkingin í borginni og gætu í krafti þess gert tilkall til borgarstjórastólsins í endurnýjuðum vinstri meirihluta. Þetta gæti farið á annan veg nú þegar VG er í ríkisstjórn.“

Egill er ekki þeirrar skoðunar að flokkarnir þrír sem nú mynda ríkisstjórn kynnu einnig að mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, ekkert annað kemst að hjá honum en að tryggja beri framtíð Dags B. í borgarstjórastólnum. Egill telur að almennt hafi kjósendur í Reykjavík „hallast svo mjög til vinstri að ólíklegt“ sé að Sjálfstæðisflokkurinn nái völdum í borginni.

Moirgunblaðið birti þessa mynd í mars 2009 þegar Dagur B. var kjörinn varaformaður og Jóhanna formaður Samfylkingarinnar.

Egill bendir á að enginn viti neitt um Bjarta framtíð en telur að Samfylking og Píratar „gætu í raun og veru verið einn og sami flokkurinn“.

Pistlinum lýkur Egill á þessum orðum:

„Samfylkingunni er mjög að aukast sjálfstraustið aftur og Dagur mun varla þurfa að fela að hann komi úr þeim flokki. Einn liður í þessu er endurreisn Jóhönnu Sigurðardóttur sem verður víða vart. Jóhönnu er hampað sem miklum og mikilhæfum leiðtoga í nýrri bók, sjónvarpsþáttum og viðtölum. Hún er helsta leiðarljós Samfylkingarinnar, gleymdir eru formennirnir Össur og Ingibjörg Sólrún og það er kominn hjúpur yfir hremmingarnar sem leiddu til algjörs fylgishruns ríkisstjórnar Jóhönnu.“

Af þessum orðum má ráða að á einhverju stigi máls hafi Dagur B. íhugað að bjóða sig ekki fram undir merkjum Samfylkingarinnar.  Hann komst í borgarstjórn undir handarjaðri Ingibjargar Sólrúnar en gekk í Samfylkinguna með henni og var um tíma varaformaður flokksins. Nú ræður að sögn Egils minningin um Jóhönnu Sigurðardóttur því að Samfylkingin gengur í endurnýjun lífdaganna og að Dagur B. vill að nýju kannast við flokkinn.

Dýrðaróðurinn um Jóhönnu Sigurðardóttur er í hróplegri andstöðu við orð hennar um samherja sína. Árni Páll Árnason, eftirmaður hennar á formannsstóli, eyðilagði stjórnarskrármálið. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, var handbendi stjórnarandstöðunnar. Meira að segja Steingrímur J. Sigfússon er skammaður fyrir að hafa falið Svavari Gestssyni að semja um Icesave sem Jóhanna var auðvitað á móti. Sjálfstæðismenn voru einfaldlega „andstyggilegir“.

Sé litið til einhvers stjórnmálamanns líðandi stundar til samjöfnuðar við orðbragðið sem Jóhanna notar um þá sem hún telur að hafi gert eitthvað á sinn hlut kemur Donald Trump fyrst í hugann. Sú stund kann að renna upp að álitsgjafar í Bandaríkjunum telji það repúblíkönum helst til bjargar að Trump hafi verið forseti.