23.7.2021 10:18

COVID hleypur í pólitíkina

Að ríkisstjórnin falli vegna ágreinings um baráttuaðferðir við COVID-veiruna er ólíklegt, hitt er líklegra að stjórnarandstaðan falli enn og aftur á eigin bragði.

Samfylkingarfólk þyrlar því upp núna að ríkisstjórnarsamstarfið sé á síðasta snúning vegna viðbragða við nýju COVID-bylgjunni hér á landi. Össur Skarphéðinsson, fyrrv. ráðherra, segir á FB-síðu sinni að viðbrögð ríkisstjórnar á allra næstu dögum geti gjörbreytt þeirri stöðu sem hann taldi líklega, að stjórnarsamstarfið héldi áfram að loknum þingkosningum 25. september.

Þriðjudaginn 20. júlí gaf fréttastofa ríkisútvarpsins Eiríki Bergmann Einarssyni stjórnmálarfæðingi tækifæri til að gefa þann tón í fréttatíma að kosningaskjálfti væri kominn í ríkisstjórnarflokkana vegna verulegrar misklíðar og klofnings um sóttvarnamál.

Jakob Bjarnar, blaðamaður á visir.is, spáir því á FB-síðu sinni 23. júlí að „stjórnin muni springa útaf minnisblaði Þórólfs [Guðnasonar sóttvarnalæknis]“ sem lagt verður fyrir ríkisstjórnina í dag (23. júlí). Hann telur hins vegar að klofningur í ríkisstjórninni vegna ákvarðana í ljósi minnisblaðsins „gæti ... reynst gott veganesti fyrir þá í kosningabaráttuna“. Þeir gætu þá „slegið öll vopn úr höndum hinnar ósamstæðu stjórnarandstöðu“.

1230488Sýnataka skiptir enn miklu í baráttu við veiruna. Hún gefur réttari vísbendingar um áhrif hennar en pólitískar spár (mynd: mbls.is).

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir Kolbrún Bergþórsdóttir að engin ástæða sé að taka því með þögninni einni að mannréttindi séu takmörkuð með COVID-höftum. Það sé „líka óþarfi að láta eins og það sé nánast guðlast að vera ósammála sóttvarnalækni“. Að viðhorf stjórnmálamanna til COVID-hafta ráðist af flokkslínum sé einkennilegt. Í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum hafi menn varla leyft sér að efast og spurt fárra spurninga. Ömurlegt sé að horfa upp á það gagnrýnisleysi. Kolbrún ber lof á Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra fyrir að standa „mannréttindavaktina af röggsemi“. Hún hafi sagt: „Markmiðunum má ekki breyta í sífellu.“ Og Kolbrún bætir við: „Einmitt það hefur gerst, þjóðinni er sagt eitt í dag og annað á morgun.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ríkissjónvarpinu í gær (22. júlí) að ríkisstjórnin fylgdi sem fyrr þeirri stefnu „að vernda líf og heilsu landsmanna“. Óvissan um hvernig það yrði best gert við núverandi aðstæður væri mikil. „Það sem er að gerast núna hjá okkur mun verða mjög mikilvægt fyrir aðrar þjóðir,“ sagði forsætisráðherra.

Á vefsíðu Fréttablaðsins má í dag lesa langt viðtal https://www.frettabladid.is/frettir/hinn-heilagi-kaleikur-gegn-covid-19-ekki-langt-undan/ við Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlækni á ónæmisfræðideild Landspítalans, um áhrifamátt bóluefna gegn kórónuveirunni. Undir lok samtalsins segir Björn Rúnar:

„Þær [góðu fréttirnar] eru það að þessi bóluefni sem við erum að nota núna og nýjustu niðurstöðurnar sýna það ótvírætt, að [þau] eru að vernda okkur gegn alvarlegu formi sjúkdómsins og minnka líkurnar á smiti. [Þau] koma ekki í veg fyrir smit hjá öllum en minnka líkurnar á smiti og vernda okkur að langstærstu leyti fyrir alvarlegasta formi sjúkdómsins, en því miður ekki fyrir alla.“

Samtalið við lækninn sýnir að sigur er í sjónmáli í stríðinu við veiruna, nokkrar orrustur eru þó eftir en við erum vel vopnum búin hér þótt enn sé varúðar þörf hjá hverjum og einum. Að ríkisstjórnin falli vegna ágreinings um baráttuaðferðir er ólíklegt, hitt er líklegra að stjórnarandstaðan falli enn og aftur á eigin bragði.