26.12.2019 12:51

Bylting í pakkadreifingu

Greininni á Axios ljúka blaðamennirnir með því að segja að líklega sé ekki tilviljun að jólasveinninn valdi skorsteininn til að koma með gjafirnar!

Þegar jólakortum fækkar blómstrar netverslun. Rannsókn blaðamanna bandarísku vefsíðunnar Axios leiðir í ljós að þetta sé jafnframt hvalreki fyrir dyrapalls-ræningja.

Net-mánudaginn 2019, fyrsta mánudaginn eftir bandaríska þakkargjörðardaginn, seldi Amazon meira á netinu en nokkru sinni fyrr. Metdreifing var hjá fyrirtækin FedEx en starfsmenn þess afhentu 33 milljónir pakka þann dag. Dreifingarfyrirtækið UPS ráðgerði að flytja 32 milljónir pakka hvern dag milli þakkargjörðardagsins og jóla.

Samtímis hefur leit á Google að „stolnum pökkum“ vaxið jafnt og þétt. Hámarki er jafnan náð í desember. Rúmlega 90.000 pökkum er stolið dag hvern í New York. Um Bandaríkin öll tínast daglega 1,7 milljón pakkar, þeim er annaðhvort stolið eða þeir rata á rangan stað.

Hátæknifyrirtæki líta á varnir gegn pakka-þjófnaði sem viðskiptatækifæri. Amazon býður til dæmis Ring-heimilisvarnarkerfið gegn þjófum. Þá fjölgar einnig öryggisskápum fyrir pakka á dyrapallinum auk þess sem ný fyrirtæki koma til sögunnar sem bjóða leiðir til að tryggja örugga geymslu á pökkum þar til eigandinn getur nálgast þá sé enginn heima á afhendingartíma. Hverfisbúðir eða kaffihús verða móttökustöðvar fyrir pakka nágranna sinna.

Greininni á Axios ljúka blaðamennirnir með því að segja að líklega sé ekki tilviljun að jólasveinninn valdi skorsteininn til að koma með gjafirnar!

Porch-p-660x400Dyrapalls-ræningi að verki.

Þeir sem áttu erindi í pósthús í Reykjavík fyrir jólin kynntust því að biðin eftir afgreiðslu getur verið alllöng. Sífellt fleiri velja líklega frekar þann kost að greiða 990 kr. fyrir að fá pakkann sendan heim en bíða í pósthúsröðinni. Póstafgreiðslufólk fer ekki aðeins í geymsluhillur til að ná í pakka heldur stimplar eða setur frímerki á umslög á meðan tugir manna bíða.

Skömmu fyrir jól var skýrt frá því að frá og með 1. febrúar 2020 yrði ekki unnt að kaupa gjafavörur, sælgæti, gos, ritföng og aðrar vörur í pósthúsum hér á landi. Á sínum tíma voru þau rök notuð fyrir að hafa þennan varning í pósthúsum að hann nýttist til að fylla upp í næsta kíló. Hagkvæmni þess var tvíbent fyrir viðskiptavininn og engin fyrir póstfyrirtækið auk þess sem gagnrýni sætti að ríkið, eigandi Íslandspósts, stæði í slíkum rekstri.

Til að sporna gegn niðurgreiðslum á póstkostnaði vegna innflutts netvarnings var í haust lögfest hér svonefnt endastöðvagjald. Greiddar eru að lágmarki 850 kr. fyrir sendingar frá Evrópu og 1.050 kr. fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu. Neytendasamtökin hafa beðið Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að kanna hvort gjaldið sé brot á EES-samningnum.

FedEx, UPS og fleiri starfa við hlið Íslandspósts ohf. hér auk Póstdreifingar ehf. Eru pósthúsbiðraðirnar ekki tákn um veröld sem var?