6.6.2022 10:36

Bylting gegn Boris

Margt bendir til að dagar Boris Johnsons sem leiðtoga Íhaldsflokksins séu taldir. Ben Wallace varnarmálaráðherra nýtur yfirgnæfandi trausts - kemur hann til Íslands á morgun?

Afmælishátíðin vegna 70 ára setu Elísabetar II. Bretadrottningar í hásæti breska samveldisins var ekki á enda runnin sunnudaginn 5. júní þegar Boris Johnson, forsætisráðherra hennar hátignar, var tilkynnt að meira en 15% af þingflokki íhaldsmanna (meira en 54 af 359 þingmönnum flokksins) hefðu tilkynnt bréflega að þeir bæru ekki lengur traust til forsætisráðherrans.

Boris og menn hans brugðust strax við og í dag (6. júní milli 17.00 og 19.00 að ísl. tíma) verða greidd atkvæði um vantrauststillöguna. Boris þarf ekki nema einfaldan meirihluta. Greiði allir þingmenn atkvæði þarf hann stuðning 180 þeirra og þá er hann friðhelgur í eitt ár. Verði vantrauststillagan samþykkt hefst leit að eftirmanni og kosningaferli án þess að Boris sé þar kjörgengur.

Tensions-are-bubbling-away-between-Ben-Wallace-and-Boris-Johnson-1241628Boris Johnson og Ben Wallace

Sé litið til ánægjuvogar innan Íhaldsflokksins fyrir einstaka forystumenn flokksins ber Ben Wallace varnarmálaráðherra höfuð og herðar yfir alla aðra með +85 á voginni en næst kemur Nadhim Zahawi menntamálaráðherra með +66,2. Boris Johnson er langneðstur með -15.

Á vefsíðu breska Íhaldsflokksins er minnt á að þrisvar áður hafi reynt á stöðu forsætisráðherra flokksins í þingflokknum, Margaret Thatcher tvisvar sinnum og Theresa May einu sinni. Þær stóðust atlöguna í atkvæðagreiðslunni en báðar hurfu úr sæti forsætisráðherrans innan árs eftir að hún var gerð.

Sérfræðingar telja að forsætisráðherrann geti gengið að stuðningi 160 til 170 þingmanna vísum sé litið til hagsmuna þeirra af því að ríkisstjórnin sitji áfram (e. payroll).

Líta beri á hlutfall þeirra sem greiða atkvæði gegn Boris í dag. Árið 1995 sagði John Major af sér sem leiðtogi til að láta reyna á stuðning við sig og fékk hann með 218 atkvæðum gegn 89. Theresa May hlaut árið 2018 stuðning 200 gegn 117. Hún sagði af sér sex mánuðum síðar.

Fyrir helgi var sagt frá því að á morgun, þriðjudag 7. júní klukkan 17.00, mundi Ben Wallace varnarmálaráðherra tala á fundi Varðbergs, Alþjóðamálastofnunar HÍ og fleiri ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Fundarefnið er: Blikur á lofti í Evrópu.

Þegar þetta er skrifað er ekki annað vitað en Ben Wallace verði hér á morgun ásamt varnarmálaráðherrum í Norðurhópnum svonefnda. „Norðurhópurinn er vettvangur reglubundins samráðs líkt þenkjandi ríkja um öryggis- og varnartengd málefni. Hópinn skipa tólf ríki: Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland, Holland, Þýskaland og Pólland,“ segir utanríkisráðuneytið.

Ben Wallace hefur meðal annars áunnið sér traust í Bretlandi vegna eindregins stuðnings við fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu Úkraínumanna gegn rússneska innrásarliðinu. Hefur Boris Johnson einnig lagt sig mjög fram Úkraínumönnum til stuðnings en annað vegur að vinsældum hans og nú segja andstæðingar hans í flokknum að hann sé ekki lengur electoral asset – kjörgripur í kosningum – og verði að víkja. Er nefnt til marks um óvinsældir hans að baulað var á hann og konu hans við St. Paul´s kirkjuna þegar þar var guðsþjónusta vegna drottningarhátíðarinnar.

Hvort Ben Wallace breyti ferðaáætlunum sínum og hugi að blikum í Íhaldsflokknum í stað þess að sitja fundi hér kemur í ljós. Víst er að hann verður í sviðsljósinu.