29.3.2019 11:40

Búsetumiðjan flyst

Svonefnd „búsetumiðja“ þeirra sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu færist í samræmi við þróun íbúðabyggðar. Þjónustofnanir og fyrirtæki taka mið af þessu.

Við núverandi aðstæður beinist athygli eðlilega mest að þeim vanda sem skapast í efnahags- og atvinnumálum vegna gjaldþrots WOW Air. Þar eiga margir um sárt að binda. Þó er líklegt að höggið verði minna en ella í fjármálaheiminum vegna þess hve lengi hefur stefnt í þessa átt í rekstri fyrirtækisins..

Í Morgunblaðinu birtist í gær (fimmtudaginn 28. mars) frétt um greinargerð Samtaka iðnaðarins (SI) þar sem segir að minni vöxtur hafi ekki mælst á fjölgun íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu en nú á milli mælinga frá árinu 2015 – mælt var tímabilið frá september 2018 til mars 2019 og var fjölgunin aðeins 3%.

„Fækkunin nú endurspeglar að stærstum hluta versnandi efnahagsástand og aukna efnahagsóvissu, m.a. vegna stöðu kjarasamninga,“ segir í greinargerð samtakanna. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir að áhugi sé á ódýrum íbúðum en markaðsbrestur hafi orðið á dýrari íbúðum. Þetta eru einmitt íbúðirnar í miðborg Reykjavíkur.

GV0144MEF.1_1153338Í greinargerðinni er bent á að stefna Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar stuðli „að tilfærslu eftirspurnar til nágrannasveitarfélaga“. Þá segir:

„[F]jöldi skráðra íbúða í Reykjavík jókst um 5% á árunum 2011-2018 meðan fjöldi skráðra íbúða í Mosfellsbæ og Garðabæ jókst um tæplega 30% og 20%, í þeirri röð, svo dæmi séu tekin.“

Svonefnd „búsetumiðja“ þeirra sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu færist í samræmi við þróun íbúðabyggðar. Þjónustofnanir og fyrirtæki taka mið af þessu.

Nú um helgina flytur Tryggingastofnun ríkisins (TR) til dæmis starfsemi sína frá horninu á Laugavegi og Snorrabraut í Hlíðarsmára í Kópavogi. Þrátt fyrir áherslu borgaryfirvalda á gildi almenningssamgangna gerir enginn neitt veður út af því að þessi þjónustustofnun flytji úr næsta nágrenni við Hlemm. Rafræn þjónusta hefur vafalaust breytt öllum samskiptum TR við viðskiptavini sína auk þess sem stofnunin telur skynsamlegra að vera nær búsetumiðjunni en miðstöð strætisvagna.

Færa má rök fyrir því að þegar litið er á „stóru myndina“ séu áhrif breytinganna í þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu og tilfærsla á fólki út á Reykjanes, austur fyrir fjall eða upp á Akranes djúpstæðari á efnahags- og atvinnulífið en hamfarirnar vegna falls WOW Air.