6.9.2024 9:47

Búrfellslundur í gíslingu

Þegar rætt er um Búrfellslund blasir við að kjörnir fulltrúar, sveitarstjórnarmenn, vilja nýta sér embættismanna- og eftirlitskerfið til að stöðva í allt að 10 ár þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd.

Nú þegar lokastigi er náð hjá Landsvirkjun við margra ára undirbúning vegna Búrfellslundar, fyrsta vindorkuvers fyrirtækisins, bregður sveitarstjórn nágranna Rangárþings ytra, þar sem vindorkuverið á að rísa fæti fyrir framkvæmdina. Stjórnendur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi kæra framkvæmdina, vindorkuverið takmarki landnýtingu í hreppnum vegna nálægðar þess við sveitarfélagið.

Á öllum stigum málsins hefur athugasemdum hreppsins verið hafnað af lögskipuðum aðilum en nú vonar Haraldur Þór Jónsson sveitarstjóri að kæra til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verði til þess að Búrfellslundur fari „aftur á byrjunarreit og [verði] ekki byggður næstu 10 árin“ svo vitnað sé til orða hans í Morgunblaðinu í gær (5. sept.)

Hér er augljóslega um þvingunaraðgerð að ræða sem þjónar því markmiði sem sveitarstjórinn hefur reifað víða, að Skeiða- og Gnúpverjahreppur eigi að fá sérstakt gjald greitt fyrir að vera nágranni Rangárþings ytra.

1132844

Svona yrði Búrfellslundur (myndvinnsla Landsvirkjun).

Nú er Búrfellslundur tekinn í gíslingu til að ná þessu markmiði. Þvingunaraðgerðin fær aukinn þunga við að fallist opinbera nefndin á sjónarmið hreppsins blasir við alvarlegur orkuskortur. Úr því að mál er komið á þetta stig kunna einhverjir að velta fyrir sér hvort gera megi skaðabótakröfu á hendur þeim sem leika sér þannig með opinbera eftirlitskerfið til að skara eld að eigin köku.

Hér skal engu spáð um hve langan tíma tekur fyrir úrskurðarnefndina að fjalla um kæruna.

Málið allt má hins vegar skoða í ljósi sífellt háværari kvartana þeirra sem atvinnurekstur stunda undan þunga eftirlitskerfisins. Þegar litið er til uppbyggingar þess kerfis hér á landi sem mótað hefur verið til að halda aftur af grænni orkuvinnslu á tímum kolefnisjöfnunar er ekki við neinn annan að sakast en okkur sjálf.

Þetta er heimatilbúinn vandi í anda vinstri grænnar náttúruverndar. Afleiðingar hans verða æ augljósari en áður vegna sögulegs skorts á vatni í Þórisvatni, miðlunarlóni virkjananna miklu í Þjórsá. Það hefur verið sérstakt gæluverkefni þeirra sem kenna sig við landvernd að hindra meiri nýtingu minna vatns í Þjórsá, til dæmis með andstöðu við Hvammsvirkjun.

Hvergi er regluverkið meira eða þyngra í vöfum en þegar hrinda á í framkvæmd áformum um meiri orkuvinnslu í landi sem hefur næsta ótæmandi kosti til að framleiða loftslagsvæna orku.

Þegar rætt er um Búrfellslund blasir við að kjörnir fulltrúar, sveitarstjórnarmenn, vilja nýta sér embættismanna- og eftirlitskerfið til að stöðva í allt að 10 ár þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd.

Þessir stjórnarhættir urðu ekki til af engu. Þeim óx fiskur um hrygg eftir hrunið 2008 þegar maður gekk undir manns hönd og kenndi andvaraleysi stjórnmálamanna um að stjórnendur fjármálafyrirtækja hefðu getað farið sínu fram. Við því væri aðeins eitt svar: að minnka pólitíska vægið en efla embættis- og eftirlitsmannakerfið. Nú er skotið á stjórnmálamenn úr annarri átt, þeir láti embættismennina stjórna sér og eftirlitskerfið sé of yfirþyrmandi.