26.2.2018 10:09

Bullandi ágreiningur vegna barnaréttarnefndar SÞ

Miklu skiptir að frambjóðandinn sé vel að sér um málefni viðkomandi stofnunar og hafi tekið þátt í störfum fyrir þjóð sína á vettvangi hennar áður en kosningabaráttan hefst. Þá verður hann að njóta eindregins stuðnings á heimavelli.

Forsætisráðuneytið tilkynnti 19. febrúar að ríkisstjórnin hefði samþykkt föstudaginn 16. febrúar að bjóða fram fulltrúa til setu í framkvæmdastjórn UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, fyrir tímabilið 2021 til 2025. Ísland átti síðast sæti í stjórn UNESCO tímabilið 2001-2005 og var það Sveinn Einarsson, leikstjóri og rithöfundur, formaður íslensku UNESCO nefndarinnar. Áður sat Andri Ísaksson prófessor í framkvæmdastjórninni 1983-1987.

Í tilkynningu forsætisráðuneytisins kemur ekki fram hver sé frambjóðandi Íslands í framkvæmdastjórn UNESCO að þessu sinni. Reynsla mín sem menntamálaráðherra af framboði Sveins á sínum tíma segir að miklu skipti að frambjóðandinn sé vel að sér um málefni viðkomandi stofnunar og hafi tekið þátt í störfum fyrir þjóð sína á vettvangi hennar áður en kosningabaráttan hefst. Þá verður hann að njóta eindregins stuðnings á heimavelli. Er ekki seinna vænna fyrir ríkisstjórnina að velja þann sem hún telur sigurstranglegan fyrir hönd Íslands og Norðurlandanna Í UNESCO að þessu sinni þótt kjörtímabilið hefjist ekki fyrr en 2021.

Tveir Íslendingar hafa setið í framkvæmdastjórn UNESCO: Ansdri Ísaksson 1983-87 og Sveinn Einarsson 2001-05.

Réttri viku eftir að ríkisstjórnin ákvað að bjóða fram í stjórn UNESCO 2021 barst tilkynning frá velferðarráðuneytinu föstudaginn 23. febrúar um að  þá um morguninn hefði ríkisstjórnin samþykkt að sækjast 29. júní 2018 eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu yrði í kjöri til nefndarinnar en í henni sætu 18 sérfræðingar og hefðu þeir það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Kosið er í nefndina á tveggja ára fresti, níu fulltrúar í hvert sinn. Hver fulltrúi er kosinn til fjögurra ára í senn. Utanríkisráðuneytið mun stýra kosningabaráttu vegna framboðs Braga með milligöngu fastanefndarinnar í New York.

Í tilkynningu ráðuneytisins sagði að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefði veitt Braga leyfi til eins árs frá embætti forstjóra Barnaverndarstofu og næði Bragi kjöri léti hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. „Staða Braga sem frambjóðanda Íslands er talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði,“ segir í tilkynningu velferðarráðuneytisins.

Hvað sem líður sterkri stöðu Braga á vettvangi SÞ er ljóst að ákvörðunin um framboð hans mælist illa fyrir á heimavelli.

Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra og yfirmaður Braga, sagði í morgunútvarpinu á rás 2 að morgni mánudags 26. febrúar:

„Það hlýtur jú að vera þannig, er það ekki, að þegar verið er að lýsa yfir stuðningi við umsókn fyrrverandi forstjóra í starf á alþjóðavettvangi, að í því felist þá fullur stuðningur við hann og í leið þá þau vinnubrögð [embættisfærslu Braga] sem þarna var kvartað yfir. Þá er ekkert óeðlilegt að spyrja: Er komin niðurstaða í þetta mál og hver var niðurstaða ráðuneytisins? Það á ekki að ástunda þau vinnubrögð, þegar svona alvarlegar kvartanir koma fram, sem snúa að trúnaði og trausti á milli jafnmikilvægra stofnana, að slíku máli sé einhvern veginn sópað undir teppi og ég trúi ekki að ráðherra ætli að gera það.“

Sunnudaginn 25. febrúar birti framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna ályktun gegn framboði Braga Guðbrandssonar á Facebook-síðu sinni. Þar segir meðal annars:

„Maður sem sakaður er um alvarleg brot í starfi og mismunun í málsmeðferð á ekki að vera fulltrúi Íslands í nefnd sem þessari. Börn eiga alltaf að njóta vafans.“

Þegar kemur að framboði í framkvæmdastjórn UNESCO ætlar ríkisstjórnin sér þrjú ár til að vinna að framboðinu. Á þremur mánuðum á hins vegar að tryggja Braga Guðbrandssyni setu í barnaréttarnefnd SÞ. Ekki skal gert lítið úr slagkrafti utanríkisráðuneytisins hér og í New York en hann má sín lítils sé bullandi ágreiningur á heimavelli. Sé hart tekist á um setu í þessari alþjóðlegu nefnd er ekki að efa að fréttir af þeim ágreiningi verði nýttar í kosningabaráttunni.