6.3.2024 9:32

Bruðlstefna pírata

Þetta er fátæklegur grobblisti miðað við rúmu 20 milljarðana sem borgin hefur varið í þessar umbreytingar. Í öllum tilvikum hefði mátt treysta á lausnir sem einkaaðilar hafa þróað og notað.

Kolbrún Áslaug Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, og Einar Sveinbjörn Guðmundsson, kerfisfræðingur í 3. sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík, birtu í gær (5. mars) grein í Morgunblaðinu um hvernig staðið hafi verið að „tilbúnum stafrænum lausnum“ fyrir 20 milljarða króna á vegum ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsviðs) Reykjavíkurborgar.

Þau segja „tilbúnar afurðir“ liðinna ára „ekki í neinu samhengi við það ævintýralega fjármagn“ sem nú þegar sé búið að eyða í verkefni á vegum ÞON. Allt of mörg verkefni hafi verið illa skilgreind og mörg hafi dagað uppi í tilraunasmiðjum ÞON eða hafi einfaldlega ekki enn litið dagsins ljós.

IStock-1297339011-1-

Þau gagnrýna meirihluta borgarstjórnar fyrir að koma fram sem gagnrýnislaus málpípa ÞON þrátt fyrir að það blasi við að farið sé með fjármagn „af mikilli lausung og ábyrgðarleysi“. Píratar hafi sérstaklega „mært þessa vegferð í blindri meðvirkni“. Tugum milljóna hafi verið eytt í dýran húsbúnað, dýran tækjakost, skemmtanaviðburði með tilheyrandi veitingum og kaup á erlendri ráðgjöf sem óljóst sé hvernig hafi skilað sér í verkefnin.

Þetta er hörð gagnrýni sem birt er 5. mars vegna þess að þann dag ætli meirihlutinn að ræða „ávinning stafrænnar umbreytingar fyrir borgarbúa“. Kemur fram að þar verði líklega um „uppskrúfaðar kynningar“ að ræða. Það sé hins vegar „ömurlegt að horfa upp á alla þá sóun og bruðl“ sem átt hafi sér stað hjá ÞON.

Greinarhöfundar segjast ekki vera þeir einu sem gagnrýnt hafi framkvæmd stafrænnar umbreytingar borgarinnar, heldur hafi Samtök iðnaðarins og margir fleiri s.s. einkafyrirtæki og einstaklingar gert það einnig. Þau fái daglegar ábendingar frá þeim sem þekki til þessara mála hjá borginni og hafi gjörsamlega blöskrað bruðlið.

Á vefsíðunni Vísi má í dag (6. mars) lesa „uppskrúfaða kynningu“ píratans Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, formanns umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, þar sem hún gortar sig af því að með stafrænni umbreytingu spari borgin tíma, fé og minnki mengun. Hún tekur dæmi sem hún segir bara toppinn á ísjakanum:

Rafrænar umsóknir til umhverfis- og skipulagssviðs; rafræn byggingarleyfi; betri upplýsingar um framkvæmdir; rauntímaupplýsingar um sorphirðu og ferilvöktun á vetrarþjónustu borgarinnar.

Þetta er fátæklegur grobblisti miðað við rúmu 20 milljarðana sem borgin hefur varið í þessar umbreytingar. Í öllum tilvikum hefði mátt treysta á lausnir sem einkaaðilar hafa þróað og notað.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir skriflegu svari frá heilbrigðisráðherra í nokkrum liðum um HIV-smit á Íslandi. Á Eyjunni er bent á að auðvelt sé að svara fyrsta lið spurningarinnar með hjálp leitarvélarinnar Google, um önnur atriði megi fræðast á heimasíðu HIV-Ísland.

Í grobbgrein sinni er Dóru Björt tíðrætt um hve stafræna umbreyting pírata í borginni spari mikið fé, pappír, tíma og mannafla. Þingmönnum pírata er sama um þetta allt með tilgangslausu spurningaflóði sínu. Hvort sem er í borgarstjórn eða á alþingi stjórnast píratar af eigin sjálfsupphafningu án tillits til þjóðarhags