26.5.2021 13:18

Brotleg borgarstjórn

Innan Reykjavíkurborgar hefur orðið til sá skilningur að Orkuveita Reykjavíkur (OR), opinbert hlutafélag, og dótturfyrirtæki þess, ON, geti farið sínu fram án tillits til almennra reglna um útboð.

Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði 19. maí 2021 að Reykjavíkurborg beri að bjóða út raforkukaup sín. Frá öndverðu hefur borgin keypt rafmagn af dótturfyrirtækjum sínum og frá árinu 2018 hefur það verið gert án afsláttarkjara, þ.e. að viðskiptin hafa átt sér stað á grundvelli ríkjandi verðskrár Orku náttúrunnar ohf. (ON). Nefndin lagði fyrir Reykjavíkurborg að bjóða út innkaup sín raforku. Þá lagði nefndin átta milljóna króna stjórnvaldssekt á Reykjavíkurborg vegna málsins og er borginni einnig gert að greiða Íslenskri orkumiðlun 1,5 milljónir króna í málskostnað.

Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði einnig 19. maí 2021 að Reykjavíkurborg braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar og einnar milljónar í málskostnað til Samtaka iðnaðarins lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út.

GotulysingReykjavíkurborg ber að bjóða út LED-væðingu götulýsingar (mynd: ON)

Þarna eru tvö dæmi um að innan Reykjavíkurborgar hefur orðið til sá skilningur að Orkuveita Reykjavíkur (OR), opinbert hlutafélag, og dótturfyrirtæki þess, ON, geti farið sínu fram án tillits til almennra reglna um útboð. Séu úrskurðir kærunefndarinnar lesnir blasir við að beitt er öllum ráðum til að markaðslögmál ráði. Virðist svo sem Reykjavíkurborg hafi talið sig geta skotið sér undan skyldunni til útboðs með því að gera engan samning við ON heldur stunda reikningsviðskipti án afsláttarkjara.

Í samtali við Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóra Íslenskrar orkumiðlunar ehf, sem leitaði til kærunefndarinnar í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. maí er dregins sú ályktun að miðað við verð sem nefnt er í úrskurði kærunefndarinnar 6,43 kr. á kílóvattstund hafi Reykjavíkurborg greitt allt að 30% of hátt verð fyrir orkuna miðað við það sem útboð hefði getað skilað henni. Sé miðað við að innkaup borgarinnar hafi verið 300 milljónir á síðasta ári myndi útboð geta skilað sem svarar 90 milljónum króna á árs grundvelli.

Almennt munar um minna en miðað við fjármálastjórn Reykjavíkurborgar þykir það líklega ekki ómaksins vert að huga að slíkri hagsýni. Stjórnendur borgarinnar trúa því einfaldlega sjálfir að það sé náttúrulögmál yfirskuldsettur borgarsjóður taki 34 milljarða króna rekstrarlán í ár í stað þess að sýna aðgæslu við meðferð fjármuna skattgreiðenda.

Þessi stjórnsýsla er í ætt við þá furðulegu staðreynd að í nafni meirihluta borgarstjórnar boðar formaður skipulagsráðs, viðreisnarmaðurinn Pawel Bartoszek, að landhelgisgæslan eigi að hypja sig af Reykjavíkurflugvelli. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mótmælir þessum vinnubrögðum og segir að aðstaðan sem gæslunni er boðin á Reykjavíkurflugvelli sé „óboðleg“. Gæslan hljóti þó að hugsa sinn gang sé henni sýnt slíkt skilningsleysi.

Sú spurning hlýtur að vakna í ljósi tveggja nýlegra úrskurða kærunefndar útboðsmála hvort landhelgisgæslan leiti ekki réttar síns hjá þriðja aðila sem skyldi meirihlutann í Reykjavík til fara að stjórnsýslureglum við ákvarðanir um aðstöðu fyrir þyrlur hennar í Vatnsmýrinni – eða á geðþótti eins manns að ráða?