30.6.2020 9:22

Brotalamir í grunnkerfum

Fréttir af brotalömum innan íslenska stjórnkerfisins eru því miður of algengar. Þá vekur athygli hve erfitt virðist vera að hrinda umbótum í framkvæmd þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þeirra.

Fréttir af brotalömum innan íslenska stjórnkerfisins eru því miður of algengar. Þá vekur athygli hve erfitt virðist vera að hrinda umbótum í framkvæmd þrátt fyrir ábendingar um nauðsyn þeirra.

Tvö dæmi þessu staðfestingar birtast í blöðunum í dag (30. júní):

Halldór Grönvöld, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, bendir í Morgunblaðinu á að engin sérstök takmörk virðist vera fyrir því að hrúga kennitölum saman á löglegt lögheimili. Íbúðarhúsnæði sem brann að Bræðraborgarstíg 1 var 192 fm en samkvæmt kennitölum voru 73 skráðir með búsetu þar. Þjóðskrá annast þessa skráningu að því er virðist gagnrýnislaust eða hirðir ekki um að afskrá. Í blaðinu er þessu lýst sem „málamyndatilfæringum á kennitölum“. Aðgæsluleysi við meðferð á kennitölum ber vott um kæruleysi varðandi grundvallarþátt í regluverki sem verður að njóta trausts vegna þess hve margt er á þessum tölum reist.

Þá bendir Halldór á að „svonefndar heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna“ eigi að hafa eftirlit með húsnæði sem vinnuveitendur útvega verkafólki. „Okkar reynsla er sú að þessir aðilar hafi ekki verið að sinna þessum málum nokkurn skapaðan hlut,“ segir Halldór. Vill hann að Vinnueftirlitið fái það verkefni að fylgjast með íbúðarhúsnæði á vegum vinnuveitenda eins og með atvinnuhúsnæði.

1215871Kyrrðar- og minningarstund við Bræðraborgarstíg 1, mánudaginn 29. júní 2020 (mynd: mbl.is/Arnþór Birkisson).

Bandaríska utanríkisráðuneytinu er lögum samkvæmt skylt að gera alþjóðlega úttekt og birta skýrslu um stöðu mansalsmála í einstökum ríkjum heims. Íslenskum stjórnvöldum gengur illa að krækja sér í góða einkunn í þessari úttekt eins og birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar segir:

„Þá er helst gagnrýnt að ekki hafi verið dæmt fyrir mansalsbrot á Íslandi í níu ár í röð. Þar að auki er gagnrýnt að fá mansalsmál séu tekin til rannsóknar og ekki sé nægilega mikið eftirlit með viðkvæmum samfélagshópum.

Fram kemur í skýrslunni að Íslendingar þurfi að auka fyrirbyggjandi aðgerðir til að bera kennsl á möguleg fórnarlömb mansals, ásamt því að auka sérþekkingu í rannsókn mála og öflun sönnunargagna.“

Lýsingin á vandræðum stjórnvalda við að ná tökum á mansalsmálum er í raun náskyld lýsingunni á því að unnt sé að skrá 73 kennitölur á 192 fm íbúðarhúsnæði. Þetta er óviðunandi hirðuleysi sem birtist í alls konar myndum, oft sorglegum. Þá er ábendingin um skort á „fyrirbyggjandi aðgerðum“ áminning um að alþingismenn hafa engan skilning á nauðsyn þess að veita heimildir til „ástandskannana“ til dæmis til varnar netglæpum. Á meðan lög heimila ekki forvarnir er þeim ekki beitt, síðan er setið uppi með eftirlitslaus vandamál innan lands vegna þess að ekkert stjórnvald greinir þau.

COVID-19-heimsfaraldurinn fer ekki fram hjá neinum og nú er gripið til umfangsmikilla sóttvarnaaðgerða á landamærastöðvum vegna hans og birtar nákvæmar fréttir um þá sem bera smit inn í landið frá útlöndum, mörg hundruð eru sett í sóttkví. Þarna er um virkar forvarnir að ræða, ástandið er kannað og gripið til gagnaðgerða. Þetta á auðvitað að gera skipulega á fleiri sviðum til að bæta þjóðlífið og minnka álag á grunnkerfi sem skortir nægilegt afl.