Brostnar vonir Kristrúnar
Við vitum nú hálfu ári síðar hvernig von forsætisráðherra um „gæfuríkt samstarf“ á alþingi rættist. Við þinglok hefur ekki ríkt sambærilegt uppnám í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu.
Hér eru setningar úr stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra 10. febrúar 2025:
„Ég vænti þess að við getum átt gæfuríkt samstarf hér á Alþingi, milli stjórnar og stjórnarandstöðu og þvert á flokka. Auðvitað verður líka tekist á. En það verður þá á lýðræðislegan og málefnalegan hátt – með hagsmuni Íslands í fyrsta sæti, ofar öllu öðru.
Þá hef ég átt fundi einslega með hverjum einasta ráðherra til að stilla upp sterkri þingmálaskrá fyrir vorþingið – sem er trúverðug og sóar ekki dýrmætum tíma í mál sem munu aldrei komast til framkvæmda.
Og það gleður mig að greina frá því, forseti, að það er full eining í þessari ríkisstjórn um öll þau mál sem birtast í þingmálaskrá sem fylgir stefnuræðu minni sem forsætisráðherra. Það er ánægjulegt eftir það sem á undan hefur gengið og lofar góðu fyrir uppbyggilegt starf á Alþingi í vor.
Fyrst ber að nefna aðgerðir til að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta.
Til að stemma stigu við óstöðugleika á húsnæðismarkaði verður gripið til bráðaaðgerða strax í vor.
Og þá verður kjaragliðnun launa og lífeyris loksins stöðvuð með lögum um að bæði örorku- og ellilífeyrir Tryggingastofnunar ríkisins hækki á hverju ári til samræmis við launavísitölu – en þó aldrei minna en verðlag. Þessi lög taka gildi með fjárlögum 1. janúar 2026.
Frumvarp strax á fyrstu dögum þings til að eyða óvissu um Hvammsvirkjun og aðrar mikilvægar framkvæmdir.“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína 10. febrúar 2025. Á skjámyndinni eru auk hennar ftá vinstri: Ragna Árnadóttir, þáv. skrifstofustjóri alþingis, og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti.
Við vitum nú hálfu ári síðar hvernig vonin um „gæfuríkt samstarf“ á alþingi rættist. Við þinglok hefur ekki ríkt sambærilegt uppnám í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu.
Tónninn í orðunum hér að ofan sýnir að forsætisráðherrann taldi að sér myndi takast, þrátt fyrir ágreining um mál, að tryggja „gæfuríkt“ þinghald. Það fór allt í handaskolum. Ráðherrann reyndist óhæfur leiðtogi þrátt fyrir hæfileika sem teknókrati.
Án viðunandi samráðs og í andstöðu við hagaðila og sveitarstjórnir í sjávarbyggðum lagði ríkisstjórnin allt undir vegna hækkunar veiðigjalds, skatta á útgerðina, sem þegar veldur stöðnun víða um land. Stjórnin rauf þingfriðinn endanlega með ofbeldi við að ljúka 2. umræðu um málið.
Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er í molum við þinglok.
Forsætisráðherra boðaði að efnt yrði til sameiginlegra funda þingflokkanna að baki ríkisstjórninni. Þar hefur líklega verið ákveðið að skilja Flokk fólksins eftir úti í kuldanum við þinglok.
Áform um afgreiðslu þriggja mála þinglokadaginn, 14. júlí, sýna að strandveiðifrumvarp Sigurjóns Þórðarsonar verður látið liggja óafgreitt. Það hefur kannski verið litið á Sigurjón sem einnota við afgreiðslu veiðigjaldsins? Var það hann sem Inga Sæland hafði í huga þegar hún sá fyrir sér ráðamenn aflífaða í felum?