10.3.2020 10:50

Breytum vanda í tækifæri

Ljósleiðaravæðingin hér á landi er ekki síst merkileg vegna aðferðarinnar sem beitt var við hana. Þar var lögð áhersla á að virkja alla og þeir sem fengu tenginguna lögðu sitt af mörkum með greiðslu hluta kostnaðarins.

Stórviðburðir hafa áhrif á líf okkar hver með sínum hætti. Gosið í Eyjafjallajökli þótti ógnvekjandi á meðan enginn vissi hvernig því lyki. Um tíma var spáð felli og auðn blómlegra byggða. Eftir gosið blómstraði ferðaiðnaðurinn meira en nokkru sinni. Reiðin í garð gossins á flugvöllum um allan heim breyttist í aðdráttarafl fyrir Ísland. Nú á þjóðin öll og um land allt mikið undir vegna ferðaþjónustunnar, líklega hefur engin atvinnugrein minnkað bilið jafnmikið milli þéttbýlis og dreifbýlis. Hún hefur fært Ísland í þjóðbraut og opnað þjóðlífið meira en nokkuð annað.

Ljosleidaralagning-skagafirdi-2016Ljósleiðari lagður í Skagafirði.

Ein afleiðing þessara breytinga er skilningur á nauðsyn þess að draga úr aðstöðumun við nýtingu stafrænnar tækni. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því verkefni með lagningu ljósleiðara um landið og háhraðatengingum um allar sveitir. Er ég til dæmis betur tengdur í Fljótshlíðinni en í 105 Reykjavík, ljósleiðari hefur að vísu verið lagður í 105-húsið en nýtist ekki vegna einhverra samkeppnissjónarmiða sem vinna í raun gegn hag neytenda – eru ekki í þágu þeirra heldur fyrirtækja.

Góðar nettengingar ber einmitt hátt um þessar mundir í umræðum um atvinnustarfsemi í löndum sem skylda fólk til að dveljast heima hjá sér í því skyni að halda útbreiðslu smitsjúkdóma í skefjum.

Í Bretlandi benda sérfræðingar á að aðeins þrjár milljónir heimila og fyrirtækja – um 10% í landinu öllu – hafi aðgang að nýjustu ljósleiðaratengingum. Nú þegar milljónir manna ákveði að halda sér til hlés á heimilum sínum og vinna þaðan kunni að koma til þess að gamlar og jafnvel úreltar net-boðleiðir stíflist og brotni undan álaginu. Fjarfundabúnaður nýtist ekki sem skyldi sé stuðst við gamlar kopartengingar. Fleiri vandamál eru tíunduð vegna lélegra tenginga í Bretlandi og sama gildir um aðrar þjóðir – hér stöndum við í fremstu röð að þessu leyti. Hvaða tækifæri felast í því?

Leiða má að því líkur að dreifing upplýsinga, vöru og þjónustu aukist enn í netheimum vegna kórónaveirunnar samhliða því sem vinnubrögð breytast og vinnustaðir. Fyrir þann sem unnið hefur heima hjá sér að ýmsum verkefnum, stórum og smáum, í meira en áratug er ekki annað unnt en mæla með breytingum í þessa veru.

Á þessu eru þó fleiri hliðar en snúa að því að skila árangri og standa við skuldbindingar. Hér skulu þær ekki tíundaðar. Þörf manna fyrir samneyti við aðra er til dæmis mismunandi.

Ljósleiðaravæðingin hér á landi er ekki síst merkileg vegna aðferðarinnar sem beitt var við hana. Þar var lögð áhersla á að virkja alla og þeir sem fengu tenginguna lögðu sitt af mörkum með greiðslu hluta kostnaðarins.

Nú þegar ríkisstjórnin boðar aðgerðir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónaveirunnar ætti hún ekki að láta við það sitja að tilgreina fjárhæðir og verkefni heldur ætti jafnframt að taka upp nýjar aðferðir við nýtingu fjárins, virkja þjóðfélagsaflið á nýjan hátt. Í því felst tækifæri sem ber að nýta.