2.10.2023 9:03

Breytt útlendingastefna

Hvert sem framhald þessara mála verður í höndum þingmanna er brýnast nú að standa skipulega að framkvæmd ákvarðana sem nú liggja fyrir.

Hvað eftir annað er varað við hættunni af einhliða fréttaflutningi án áherslu á að kynna allar hliðar máls sem verði til þess að hrein ósannindi breytist í „staðreyndir“ á samfélagsmiðlum. Um leið og þessi varnaðarorð eru höfð í huga ber einnig að líta til þess að netið opnar auðveldan aðgang að frumgögnum og þar með tækifærum til að sannreyna hvort farið sé með rétt mál eða rangt.

Border-control

Í fréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 1. október sagði þingmaður Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, rökstuðning kærunefndar útlendingamála rýran þegar nefndin úrskurðaði að farandfólk frá Venesúela skyldi ekki njóta hér stöðu flóttamanna. Fullyrðing þingmannsins stenst ekki skoðun þegar úrskurður nefndarinnar er lesinn á vefsíðu stjórnarráðsins.

Kærunefndin rekur þróunina í Venesúela í ítarlegu máli með vísan til ógrynni gagna. Í máli samkynhneigðs hælisleitanda segir nefndin „að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna“.

Það er ómaklegt að blása á þetta á þann veg sem þingmaður Pírata gerir með því að segja að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ekki dregið til baka tilmæli frá 2019 og fullyrða síðan „að kærunefndin sé þarna að láta undan pólitískum þrýstingi“. Öfgafull afstaða Pírata í útlendingamálum einangrar þá.

Í sama fréttatíma ríkisútvarpsins var rætt við Sigmar Guðmundsson, þingmann Viðreisnar, sem segist una niðurstöðu kærunefndarinnar en lýsir áhyggjum yfir „stigmagnandi hörku í umræðunni um útlendingamálin,“ eins og segir í fréttinni, það „sé ekki gott fyrir neitt samfélag og hafi verið mjög slæmt fyrir þau samfélög þar sem hatrammar deilur um útlendingamál hafi verið“.

Sigmar hefur einmitt vakið athygli á alþingi fyrir ofsafengnar ræður um útlendingamál þar sem hann hefur jafnvel viljað „trompa“ Pírata. Af þeim sökum vekur kúvending hans og sáttatal um málaflokkinn núna meiri athygli en ella. Í sumar sneri Viðreisn við blaðinu í útlendingamálum þegar flokksformaðurinn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skrifaði bréf til forsætisráðherra og hvatti til nýrrar sáttargjörðar flokkanna um útlendingamál.

Bergþór Ólafsson, annar tveggja þingmanna Miðflokksins, vill endurskrifa útlendingalögin í heild. Hann boðar þá skoðun ekki í neinum sáttahug.

Hvert sem framhald þessara mála verður í höndum þingmanna er brýnast nú að standa skipulega að framkvæmd ákvarðana sem nú liggja fyrir og sýna að farið sé að lögmætum ákvörðunum undanbragðalaust.

Hvarvetna endurskoða evrópskar ríkisstjórnir nú útlendingastefnu sína af ótta við vaxandi straum farandfólks. Í franska blaðinu Le Figaro er í dag (2. október) samtal við starfsmann hugveitu sem vísar til mótunar nýrrar og strangari útlendingalöggjafar í Svíþjóð og Finnlandi auk þess að benda á þriðja norræna ESB-ríkið, Danmörku, sem fyrirmynd þegar rætt sé um leiðir þjóða til að móta framtíð sína og frelsi á eigin forsendum með stjórn á landamærum sínum. Sambærileg áherslubreyting þarf að verða í umræðum um útlendingamál hér.