12.9.2023 9:52

Breyting í þingflokki – traustur fjárhagur

Með því að afsala sér formennsku í þingflokknum skapar Óli Björn sér meira svigrúm en ella til að veita aðhald í nafni einstaklingsframtaks og athafnafrelsis á þingi.

Það eru veruleg pólitísk tíðindi að Óli Björn Kárason, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, segir af sér þegar tæp tvö ár eru liðin af kjörtímabilinu en í upphafi þingstarfa eftir kosningar 2021 var hann kjörinn í þetta trúnaðarstarf.

Eins og sjá má á vikulegum greinum Óla Björns í Morgunblaðinu er hann hægrisinnaður hugsjónamaður og talsmaður einkaframtaks og atvinnufrelsis. Honum var mjög misboðið vegna þess hvernig Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra stóð að ákvörðunum um hvalveiðar. Þá er augljóst að vinnubrögð Svandísar vegna fiskveiðistjórnarkerfisins vekja tortryggni hjá Óla Birni eins og mörgum öðrum.

Með því að afsala sér formennsku í þingflokknum skapar Óli Björn sér meira svigrúm en ella til að veita aðhald í nafni einstaklingsframtaks og athafnafrelsis á þingi.

Screenshot-2023-09-12-at-09.51.09

Hildur Sverrisdóttir tekur við af Óla Birni sem þingflokksformaður en hún var þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður frá janúar 2017 og fram að kosningum 2017 og síðan frá 2021. Hér var í gær bent á samtal við Hildi í hlaðvarpi Þjóðmála um helgina. Þegar hlustað er á það í ljósi þess að hún er nú orðin þingflokksformaður má kynnast viðhorfi ábyrgs þingmanns sem er annt um að mál séu rædd á málefnalegum forsendum en ekki með upphrópunum. Hún færir einnig rök fyrir framhaldi stjórnarsamstarfsins með hliðsjón af ábyrgðinni sem þingmenn axla og hafa axlað undir forystu Óla Björns.

Að morgni þriðjudagsins 12. september kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, enn á ný fjárlagafrumvarp sem sýnir að undir hans forystu ríkir öryggi og festa í ríkisfjármálum þótt á móti blási um skeið vegna verðbólgu. Hana má rekja til mikilla umsvifa í hagkerfinu og er þess skemmst að minnast að forseti ASÍ krafðist þess að gerðar yrðu ráðstafanir til að minnka vöxt ferðaþjónustunnar til að draga úr verðbólgu og lækka vexti.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2024 er gert ráð fyrir nærri 56 milljarða króna hallarekstri, einkum vegna þess að vaxtagjöld ríkisins eru 91 milljarði hærri en vaxtatekjur. Sé aðeins litið til reglulegs rekstrar væri nærri 35 milljarða króna afgangur.

Enn á ný hlýtur að vera höfuðmarkmið að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs eins og fjármálaráðherrar sjálfstæðismanna hafa gert á markvissan hátt allt frá 1991 að árunum 2009 til 2013 og hluta árs 2017 undanskildum.

Forsjálni í ríkisfjármálunum undir forystu sjálfstæðismanna hefur reynst þjóðinni best þegar á móti blæs eins og við hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og stöðvunina sem varð vegna heimsfaraldursins á þessum áratug.

Samanburðurinn við fjármálastjórnina í Reykjavík í anda Samfylkingarinnar er sláandi. Í stað þess að kynna fjármál borgarinnar og fjárhagsáætlun á sambærilega gagnsæjan hátt og Bjarni kynnir fjármál ríkisins er farið undan í flæmingi af hálfu borgarstjóra og gripið til marklausra samanburðaraðferða, megi finna snöggan blett hjá öðrum er því hampað, til að segja allt í lagi í borginni sem flýtur á milli mánaðamóta með „þetta-reddast-aðferðum“.