15.1.2019 11:46

Brexit: varnaglinn veldur vandræðum

Nafnorðið „þrautavari“ er skrýtið á íslensku og einnig sem þýðing á backstop – nærtækara er að tala um öryggisnet eins og Frakkar eða varnagla.

Lykilorð í umræðum í Bretlandi um Brexit, úrsögnina úr ESB, er orðið backstop sem í íslenskri orðabók er þýtt á þennan veg: „veggur ; net sem varnar því að knöttur fari út af; bakhjarl ; stuðningur“. Í Frakklandi kalla þeir þetta filet de sécurité : öryggisnet.

Í Morgunblaðinu í morgun (15. janúar) segir:

„Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær að leiðtogar Evrópusambandsins hefðu sent bréf til sín, þar sem veittar voru frekari skýringar á því hvernig »þrautavarinn« varðandi landamæri Írlands og Norður-Írlands væri einungis tímabundin og óhentug ráðstöfun, en fyrirhugað er að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 29. mars.“

Hér skal ekkert fullyrt um hve margir skilja það sem í fréttinni segir. Í fréttum ríkisútvarpsins er ekki minnst á þetta en þar tala menn sífellt um að „kosið“ verði um tillögu May um viðskilnaðinn við ESB á breska þinginu í dag. Ríkisútvarpið vill að „kosið“ sé um allt, orðið atkvæðagreiðsla eða að greidd séu atkvæði um mál á ekki upp á pallborðið í Efstaleiti, reglan er þó einföld: kosið er um menn en greidd atkvæði um mál.

Nafnorðið „þrautavari“ er skrýtið á íslensku og einnig sem þýðing á backstop – nærtækara er að tala um öryggisnet eins og Frakkar eða varnagla.

XVMe9c69a28-e8c8-11e8-b830-09fa8f220334Á tveggja ára umþóttunartímanum sem hefst 29. mars 2019 verður Bretland í tollabandalagi við ESB og engin breyting verður á landamærum Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Efnislega lýsir orðið backstop því að náist ekki viðskiptasamningur milli Breta og ESB á þessum tveimur árum tryggir varnaglinn að Bretar verði áfram í tollabandalaginu til að koma í veg fyrir „hörð“ landamæri á Írlandi. Varnaglinn er sagður tímabundinn án þess vísa á lausn. Stuðningsmenn stjórnar Theresu May í Lýðræðislega sambandsflokknum (DUP) á Norður-Írlandi auk margra þingmanna Íhaldsflokksins vilja losna úr tollabandalaginu við ESB og sætta sig ekki við að landamæravandanum sé ýtt á undan sér á þennan hátt.

Þessi skýring á inntaki backstop er hér sett fram með þeim fyrirvara að aðrir kunna að skilja hvað í varnaglanum felst á annan hátt. Hér á sama við og jafnan um deilur í stjórnmálum að sameiginlegur skilningur er ekki alltaf auðfundinn.