12.12.2020 10:30

Brexit-þrautalendingar beðið

Viðræðurnar eru í grunninn óvinsamlegar. Neikvætt viðhorf í garð ESB varð ofan á í brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní 2016.

Í byrjun vikunnar sagði hér á síðunni að það benti til sameiginlegrar niðurstöðu í viðræðum fulltrúa Breta og ESB að fréttir bærust um að lausn vegna ágreinings um fiskveiðar við Bretland eftir 1. janúar 2021.

Þegar leið á vikuna kom í ljós það þetta voru falsfréttir um fiskinn. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur ekkert slegið af kröfum vegna franskra sjómanna austan við Ermarsund. Þeir vilja halda rétti til veiða innan breskrar lögsögu. Án samnings búa Bretar sig hins vegar við að beita flota sínum til að halda erlendum fiskiskipum utan lögsögu sinnar. Af breskum blöðum má ráða að litið sér til reynslunnar af þorskastríðunum við okkur Íslendinga á áttunda áratugnum – með öfugum formerkjum, nú ver breski flotinn lögsögu en ekki ólöglegar veiðar innan hennar.

Miðvikudaginn 9. desember hitti Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í Brussel. Þau náðu aðeins samkomulagi um að stefnt yrði að því að láta reyna til þrautar um samninga nú um þessa helgi.

TELEMMGLPICT000246457891_trans_NvBQzQNjv4BqqVzuuqpFlyLIwiB6NTmJwV9cBjtDllIDb5baRdCxjpEBoris Johnson og Ursula von der Leyen eftir árángurslauan Brusselfund miðvikudaginn 9. desember.

Boris Johnson vill komast til Berlínar og Parísar til að hitta Angelu Merkel kanslara og Emmanuel Macron forseta. Hann vill fá tækifæri til að ræða við þau sitt í hvoru lagi í von um að finna glufu til lausnar en þó kannski einnig til að etja þeim hvort gegn öðru, að minnsta kosti með spuna í fjölmiðlum.

Öllum tilmælum breska forsætisráðherrans um slíka tvíhliða fundi hefur verið hafnað. Honum er einfaldlega sagt að framkvæmdastjórn ESB hafi samningsumboðið og þangað beri honum að snúa sér. Þegar í fjölmiðlum var ýtt undir þá skoðun að Merkel væri hlynntari samningi við Breta en Macron sáust strax merki um að fulltrúar landanna áréttuðu traust sitt í garð von der Leyen og þéttu raðirnar að baki henni.

Ráðandi tónn á þessari stundu er að ekki verði samið. Þannig er staðan 12. desember 2020, réttu ári eftir að Boris Johnson og Íhaldsflokkur hans vann glæsilegan kosningasigur og ruddi öfgafullum vinstrisinnum til hliðar auk þess sem talsmenn náinna ESB-tengsla urðu undir í hans eigin flokki. Síðan hefur COVID-19-faraldurinn sett allt úr skorðum en þó ekki brexit-viðræðuferlið þótt margt sé litið öðrum augum en áður.

Viðræðurnar eru í grunninn óvinsamlegar. Neikvætt viðhorf í garð ESB varð ofan á í brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní 2016. Brusselmenn tóku höfnuninni illa og reistu varnargirðingar. Eftir að Boris Johnson og Ursula von der Leyen hittust á árangurslausum fundi 9. desember sagði The Daily Telegraph í leiðara (11. desember):

„Enn er unnt að ná æskilegum samningi, forsætisráðherrann hefur lagt sig allan fram um það. Smásmygli, kreddufesta og vænisýki ESB auðvelda það þó ekki heldur minna stöðugt á hvers vegna Bretar ákváðu úrsögn í atkvæðagreiðslunni 2016.“

Gagnkvæma ásakanastríðið magnast bara verði ekki samið. Það lofar ekki góðu fyrir okkur nágrannana.