3.11.2019 10:42

Brexit og sjálfstæðisbarátta Skota

Kosningarnar í Skotlandi snúast ekki aðeins um fjölda þingmanna hvers flokks heldur einnig um hvort sjálfstæðisbaráttan tekur flugið að nýju.

Andstæðingar Boris Johnsons, forsætisráðherra Breta og leiðtoga Íhaldsflokksins, reyna að setja hann í sömu skúffu og Donald Trump Bandaríkjaforseta við upphaf þingkosningabaráttunnar í Bretlandi.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, gefur hvað eftir annað til kynna að eftir úrsögn úr ESB ætli Boris Johnson að semja við Trump á þann veg að Bandaríkjamenn nái undirtökunum í NHS, breska heilbrigðiskerfinu. Umræðurnar um NHS snúast almennt um auknar fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins og enginn flokkanna boðar sparnað þar. Til að ala á tortryggni í garð íhaldsmanna grípur Corbyn til þess ráðs að saka þá um að ætla að framselja NHS til Trumps!

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, segir að sigri Boris Johnson, sem sé eins og strengjabrúða Donalds Trumps, verði Skotar „rifnir frá evrópskri fjölskyldu sinni“ þvert á vilja þeirra. Kosningarnar til þingsins í London séu þær „mikilvægustu á ævi okkar“.

Hún segir óþolandi fyrir Skota að búa við Boris Johnson, fjarstýrðan af Trump, og Jeremy Corbyn, leiðtoga breska Verkamannaflokksins, sem geti ekki gert upp við sig hvort hann vilji eða vilji ekki brexit, úrsögn úr ESB. „Vinir mínir, betri kosturinn er, miklu betri kosturinn fyrir land okkar er að við tökum framtíð okkar í eigin hendur,“ sagði hún á fjölmennum útifundi á George-torgi í Glasgow laugardaginn 2. nóvember.

20515644-7642539-image-a-118_1572710395415Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, ávarpar útifund sjálfstæðissinna laugardaginn 2. nóvember 2019 – í fyrsta sinn frá 2014.

Skotar greiddu í september 2014 atkvæði um sjálfstæði sitt. Þeir sem höfnuðu að slíta tengslin við Sameinaða konungdæmið (UK) unnu baráttuna þá, málstaður þeirra fékk 55,3% atkvæða. Var þetta fyrsti fjöldafundurinn undir merkjum sjálfstæðissinna sem Nicola Sturgeon ávarpaði frá árinu 2014.

Ári síðar, 2015, vann Skoski þjóðarflokkurinn stórsigur í almennum þingkosningum, jók þingmannafjölda sinn í neðri deildinni í London úr sex mönnum í 56. Þegar Theresa May boðaði óvænt til kosninga 2017 fékk Skoski þjóðarflokkurinn 35 þingmenn, tapaði 21.

Nú berst Sturgeon og flokkur hennar fyrir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota með þeim rökum að úrsögn úr ESB gagngi gegn vilja Skota sem hafi lýst stuðningi við ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslunni um hana árið 2016, þá sögðust 62% Skota vilja vera áfram í ESB.

Meðal helstu röksemda þeirra sem vilja telja Skotum hughvarf vegna ESB-hollustu þeirra er að brexit leiði til þess að stjórn fiskveiða færist frá Brussel til Bretlands. Skotar hafa jafnan lýst óánægju með hvernig Brusselmenn stjórna sjávarauðlindinni við Skotland.

Kosningarnar í Skotlandi snúast ekki aðeins um fjölda þingmanna hvers flokks heldur einnig um hvort sjálfstæðisbaráttan tekur flugið að nýju. Nicola Sturgeon og félagar hennar veðja á að þeir styrki stöðu sína með því að krefjast sjálfstæðis frá Sameinaða konungdæminu en halla sér enn frekar að ESB. Fyrir skömmu fékk Sturgeon þýska viðurkenningu fyrir að vera „rödd skynseminnar“.