7.12.2020 9:24

Brexit á bláþræði

Hafi í raun náðst samkomulag um fiskveiðimál milli Breta og ESB ræðst niðurstaðan af því að Frakkar hafi mildað harða afstöðu sína.

Fréttir bera með sér að nú dragi til lokatíðinda í brexit-viðræðum fulltrúa Breta og ESB. Bretar sögðu sig úr ESB 31. janúar 2020. Frá þeim tíma hefur verið leitað samkomulags um framtíðarskipan eftir að Bretar segja skilið við sameiginlega EES-markaðinn 1. janúar 2021.

Á bresku vefsíðunni The Telegraph segir mánudaginn 7. desember að kvöldið áður hafi ESB slegið af kröfum um veiðiréttindi ESB-þjóða innan breskrar fiskveiðilögsögu. Miðað við hvað sjávarútvegur skiptir litlu í þjóðarframleiðslu ríkjanna sem þarna eiga hlut að máli er næsta sérkennilegt að fylgjast með hörkunni í deilunni um fiskveiðiréttindin.

Það er þó ekki hluturinn í þjóðarframleiðslunni sem þarna ræður mestu heldur starfsöryggi sjómanna og hefðir í sjávarbyggðum sem hafa miklu meiri pólitísk áhrif en efnahagslegi þátturinn gefur til kynna. Þetta ætti okkur Íslendingum að vera betur ljóst en flestum þjóðum miðað við deilurnar sem urðu vegna krafna okkar um ráð yfir fiskimiðunum við Ísland. Ein mesta blekkingin á tíma ESB-aðildarumsóknar vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 var að semja mætti um viðunandi lausn við ESB um sjávarútvegsmál. Slíkur samningur var aldrei í kortunum eins og kom í ljós strax 2011.

Hafi í raun náðst samkomulag um fiskveiðimál milli Breta og ESB ræðst niðurstaðan af því að Frakkar hafi mildað harða afstöðu sína. Fréttir hafa að minnsta kosti verið um staðfestu franskra stjórnvalda gegn kröfum Breta.

Næst er að sjá hvort samkomulag tekst um samkeppnismálin, það er bann við opinberum aðgerðum til að bæta samkeppnisstöðu eins markaðssvæðis á kostnað hins. Þá er einnig ósamið um það sem kallað er „tveggja stoða lausn“ í EES-samstarfinu, það er hvernig tryggt verður með óhlutdrægu eftirliti að farið sé að umsömdum leikreglum.

143blower7-12-20_trans_NvBQzQNjv4BqqjYeQRtCUmaNTl9ge3Skvf2LZgWddHfes6e-pNqDiVgAllar hugmyndir um lausn á þessum sviðum hljóta að liggja á borðinu eftir alla fundina árum saman. Nú eru við hins vegar vitni að því sem talið er nauðsynlegt að setja á svið til að hvor aðili um sig telji sig sæmilega sáttan þegar upp er staðið. Á lokaklukkustundunum er því að sagt að allt „hangi á bláþræði“.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, ræddi við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, laugardaginn 5. desember og nú er sagt að þau ætli að ræða saman að nýju í kvöld, 7. desember, til að ákveða hvort viðræðum verði slitið eða haldið áfram á morgun.

Efnisatriði þessa brexit-viðræðnanna eru flókin og náist samkomulag um þau verður það örugglega ekki auðskilið. Hitt er að í huga þeirra sem fylgjast með brexit-fréttunum er efnið komið í annað sæti á eftir eilífu spurningunni um hvort semst eða ekki. Í rúm fjögur ár hefur þetta mál ráðið framvindu stjórnmála í Bretlandi og hvílt eins og mara á ESB.