9.5.2018 10:30

Bretland: Lávarðadeildin samþykkir EES-aðild

Samþykkt lávarðadeildar breska þingsins sýnir að enn er of snemmt að taka afstöðu til þess hver verður staða EES-samningsins að loknum úrsagnarviðræðum Breta.

Lávarðadeild breska þingsins kom mörgum í opna skjöldu síðdegis þriðjudaginn 8. maí þegar samþykkt var með 245 atkvæðum gegn 218 að í tengslum við afgreiðslu neðri deildarinnar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um brottför úr ESB skyldi sérstaklega látið reyna á hvort Bretland yrði áfram aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES) þrátt fyrir ESB-úrsögnina.

Í The Guardian segir að samþykkt þessarar breytingartillögu sé 13. ósigurinn fyrir ríkisstjórn Theresu May við afgreiðslu frumvarpsins í lávarðadeildinni. Þá sé tillagan líklega sú breyting sem ógni Brexit-stefnu ríkisstjórnarinnar mest því að í henni felist að Bretland verði áfram aðili að innri markaði ESB.

Alli lávarður úr Verkamannaflokknum flutti tillöguna. Flokkssystkini hans höfðu fengið fyrirmæli um að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna en 83 þeirra gerðu það ekki, þeirra á meðal voru Neil Kinnock, fyrrv. flokksleiðtogi, og Peter Mandelson, fyrrv. ráðherra. Tillagan naut einnig stuðnings lávarða úr Íhaldsflokknum og þeirra á meðal voru Chris Patten, fyrrv. landstjóri í Hong Kong, og Heseltine lávarður, fyrrv. vara-forsætisráðherra.

Úr bresku lávarðadeildinni.

Í The Guardian segir að samþykkt tillögunnar með svo miklum stuðningi lávarða úr Verkamannaflokknum valdi Jeremy Corbyn, leiðtoga flokksins, sérstökum vandræðum. Corbyn hafi staðið gegn öllum tillögum um að Bretar verði áfram aðilar að innri markaðnum eftir úrsögnina úr ESB. Kannanir sýni hins vegar að 87% félaga í Verkamannaflokknum vilji áfram aðild að innri markaðnum.

Samþykkt þessarar tillögu snýr meðal annars að því álitamáli hvort Bretar hverfi sjálfkrafa úr EES við brottför úr ESB eða hvort þeir þurfi að rifta EES-aðildinni sérstaklega.

Ákvæði 127 gr. EES-samningsins um riftun aðildar að honum gerir ekki ráð fyrir sérstökum viðræðum um úrsagnarskilmála eins og 50. gr. sáttmála ESB. Í 127 gr. EES-samningsins er mælt fyrir um 12 mánaða riftunarfrest. Bretar hafa ekki enn sent neina tilkynningu um úrsögn úr EES þótt innan við ár sé þangað til þeir fara úr ESB.

Á dögunum gaf utanríkisráðuneytið út skýrslu um skref í átt að betri framkvæmd EES-samningsins. Þar eru reifuð úrræði í þessu sambandi. Þegar ESB-úrsögn Breta er nefnd til sögunnar segir að væntanleg útganga Breta „hafi vakið vangaveltur um hvort fríverslunarsamningur við ESB og Breta geti á einhverju stigi komið í staðinn fyrir aðild Íslands að EES-samningnum“. Ekki er nánar skýrt hvar þessar vangaveltur hafa birst en augljóst er af markmiðunum sem lýst er í skýrslunni að ráðuneytið stefnir að því að nýta sér kosti EES-samningsins sem best.

Samþykkt lávarðadeildar breska þingsins sýnir að enn er of snemmt að taka afstöðu til þess hver verður staða EES-samningsins að loknum úrsagnarviðræðum Breta. Hér hefur áður verið lýst þeirri skoðun og skal hún áréttuð að besta niðurstaðan fyrir íslenska hagsmuni yrði aðild Breta að EES. Þess vegna er óvæntri samþykkt bresku lávarðadeildarinnar fagnað.