Bretland: Brexit-ráðherrann segir af sér
Theresa May hefur „samið of mikið við sjálfa sig“ að mati Davis eða með orðum hans „gefið of mikið eftir á of auðveldan hátt“ gagnvart ESB.
Evrópusambandið var stofnað göfugum og friðsömum tilgangi: að skapa jafnvægi og stöðugleika milli þjóða Evrópu í því skyni að útiloka að þar hæfust að nýju styrjaldir á borð við fyrri og síðari heimsstyrjaldirnar. Þetta markmið hefur vissulega náðst. Á hinn bóginn hefur samrunaþróunin í Evrópu undir merkjum sambandsins leitt til harðvítugra pólitískra deilna innan þess og innan einstakra aðildarríkja vegna þess.
Með Lissabon-sáttmálanum svonefnda frá árinu 2009 var opnuð leið fyrir þjóðir ESB til að segja skilið við sambandið. Bretar eru fyrsta þjóðin sem ákveður í þjóðaratkvæðagreiðslu að gera það. Afleiðingarnar eru hörmulegar bæði í samskiptum Breta við stjórnmálamenn og embættismenn ESB-ríkjanna og innan Bretlands þar sem hver höndin er uppi á móti annarri eins og sannast síðast í dag (9. júlí) þegar David Davis, sjálfur brexit-ráðherrann, segir af sér vegna þess að hann treystir sér ekki til að framfylgja stefnunni sem ríkisstjórnin undir forsæti Theresu May mótaði á fundi sínum föstudaginn 6. júlí. Davis segist ekki geta fylgt fram stefnunni þar sem hann hafi ekki „trú“ á henni.
Theresa May messar yfir ráðherrum sínum föstudaginn 6. júlí
Theresa May hefur „samið of mikið við sjálfa sig“ að mati Davis eða með orðum hans „gefið of mikið eftir á of auðveldan hátt“ gagnvart ESB til að hann vilji standa að framkvæmd stefnunnar, hann hafi enga samningsstöðu gagnvart ESB.
Sömu áráttu til samninga við sjálfan sig höfum við Íslendingar kynnst, til dæmis í Icesave-málinu. Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson forystumenn hreinræktuðu vinstri- og ESB-stjórnarinnar leiddu málið í ógöngur með því að láta sífellt undan kröfum sem áttu skjól í ESB-aðildarumsókninni. Makríl-deilan varð að engu eftir að horfið var frá aðildarumsókninni. Þá gátu ESB-menn ekki hótað okkur í krafti hennar.
Íslensk stjórnvöld slógu af í meginmálum í von um að skapa sér sterkari stöðu gagnvart ESB-mönnum! Brusselmenn gáfu hins vegar ekkert eftir í aðlögunarkröfunum, til dæmis varðandi sjávarútveginn. Viðræðurnar runnu út í sandinn og árið 2015 tilkynnti utanríkisráðherra Íslands að Íslendingar væru ekki lengur umsóknarþjóð. Það er bindandi yfirlýsing að þjóðarétti.
Viðræður Breta og ESB eru á góðri leið að renna út í sandinn. Bretar verða líklega best settir að lokum án frekari viðræðna við ESB-menn og engan úrsagnarsamning við þá í mars 2019.